Valorka Valorka

Sidebar

Main Menu

  • Valorka
  • Sjávarfallaorka
  • Tækni
  • Fróðleikur og skýrslur
  • Fréttir
  • Um Valorku ehf.
  • English
  • Valorka
  • Sjávarfallaorka
  • Tækni
  • Fróðleikur og skýrslur
  • Fréttir
  • Um Valorku ehf.
  • English

Fréttir

Kynningarstarf og fyrirlestrar

Details
Valdimar Össurason logo
Fréttir
09 mars 2013
Skoðað 15457 sinnum

Mikilvægur þáttur í þróunarstarfi Valorku er kynningarstarf og fræðsla. Það fylgir reyndar allri þróunarstarfsemi, en hvergi er það eins mikilvægt og í frumkvöðlastarfsemi sem þessari:  Þegar bryddað er á notkun nýrrar og mikilvægrar auðlindar sem ekki hefur verið nýtt áður; þegar lítið örfyrirtæki þarf að hasla sér völl meðal risa á orkumarkaði sem hafa lítt takmörkuð ítök og fjárráð; þegar opna þarf fyrir skilning stjórnvalda á málefni sem lítil sem engin umræða hefur áður verið um og nánast er óþekkt í skólakerfi og akademsku starfi; og þegar flestir fjölmiðlar eru fremur uppteknir af æsifregnum og fánýtum tískufyrirbærum en því sem hagnýtt kann að reynast.

Valorka hefur því lagt mikla áherslu á að nýta þau raunhæfu tækifæri sem gefast til að kynna verkefnið, bæði meðal almennings og í skólum.  Svo virðist sem fjölmiðlar séu í þann veginn að vakna til meðvitundar um þá möguleika sem verkefnið mun að öllum líkindum skapa, þó enn sé langt í land með að skilningur vakni almennt á raunverulegri stöðu og horfum í orkumálum Íslendinga.  Allri umræðu um slíkt hefur markvisst verið haldið niðri af stórum orkufyrirtækjum og stofnunum á þessu sviði, og má líkja þeirri þöggun við umfjöllun um "íslenska fjármálaundrið" stuttu fyrir fjármalahrunið.  E.t.v. þarf þjóðin að lenda í orkukreppu til að vitræn umræða hefjist almennt um orkumál.

Undirritaður hélt gestafyrirlestur um verkefnið á umhverfis- og auðlindasviði Háskóla Íslands hinn 22. febrúar 2013.  Þetta er í annað sinn sem hinn framsýni kennari Þröstur Þorsteinsson biður um kynningu á verkefnum Valorku, sem er ánægjulegt.  Nemendur á þessu sviði koma úr flestum heimshornum og því var fyrirlesturinn á ensku.  Teknar voru saman glærur og farið yfir verkefni Valorku og sjávarfallaorku almennt.  Nemendur voru áhugasamir og margar spurningar komu í lok fyrirlestrarins, sem tók nær tvær klukkustundir.

hornafj orkuradst_mar2013Hornafjarðarbær sýndi enn eitt framtakið á sviði orkumála með því að boða til orkuráðstefnu 28.febrúar 2013.  Þar var undirrituðum boðið að halda erindi um sjávarorku, ásamt fríðum hópi fyrirlesara úr mörgum orkutengdum greinum. Nánar um ráðstefnuna má lesa á vef Hjalta Þór Vignissonar bæjarstjóra.  Margt fróðlegt kom fram í erindunum og greinilegt að gróska er mikil í orkumálum, ekki síst kringum framsækin sveitarfélög eins og Hornafjörð.

Pétur Halldórsson, umsjónarmaður hins fróðlega þáttar "Tilraunaglasið" á Rás-1 í Rúv, hafði samband við undirritaðan í kjölfar orkuráðstefnunnar á Hornafirði, og var viðtalið sent út 8. mars 2013.  Þar má líklega heyra ítarlegustu lýsinguna á hverflum Valorku sem birst hefur til þessa, og er frágangur Péturs á viðtalinu til fyrirmyndar.  Hægt er að heyra viðtalið hér; á vefsvæði Tilraunaglassins.

Þá var umfjöllun í kvöldfréttatíma RÚV 11.mars 2013, þar sem lýst var erfiðleikum við fjármögnun þessa fyrsta hverfils Íslendinga og litlum skilningi stjórnvalda, ásamt því sem sagt var frá fyrirhuguðum sjóprófunum.

Glærur sem kynntar voru á ráðstefnunni á Höfn má sjá hér; "kynning á sjávarorku og verkefnum Valorku".

Valorka þakkar þeir sístækkandi hópi sem sýnt hefur áhuga á nýjum aðferðum í orkuvinnslu og nýtingu nýrra orkulinda.

Valdimar Össurarson 

Sjávarorkurannsóknir: víðtækt faglegt samstarf

Details
Valdimar Össurason logo
Fréttir
08 desember 2012
Skoðað 19574 sinnum

straumar hitiStórt skref hefur verið stigið í undirbúningi rannsókna á stærstu og tryggustu orkulind Íslands; sjávarfallaorku.  Samhliða sínu þróunarstarfi hefur Valorka unnið að því um nokkurra ára skeið að koma á fót faglegum rannsóknum á sviði sjávarorku við landið.  Þetta svið rannsókna hefur verið algjörlega sniðgengið hérlendis að frátöldum örfáum staðbundnum athugunum.  Efir því sem þróunarstarfi  Valorku vindur lengra fram hefur þörfin á þessum rannsóknum orðið sífellt brýnni. 

Rannsóknir á sjávarorku eru því einn hlutinn af því frumkvöðlastarfi sem Valorka hefur þurft að leiða til að unnt sé að þróa hérlendis og taka í notkun þá tækni sem fyrirtækið vinnur að, en hér hefur áður verið greint frá vinnu Valorku við að fá fram stjórnvaldsstefnu á þessu sviði með þingsályktun.  Framkvæmdastjóri Valorku hefur um langt skeið verið í sambandi við Hafrannsóknastofnun og notið þaðan góðra upplýsinga og ráðlegginga.  Hefur Héðinn Valdimarsson haffræðingur verið mikill viskubrunur og jafnframt áhugasamur um verkefni Valorku; bættar mælingar og aukinn tækjakost til rannsóknaverkefna.  Stjórnendur Hafró hafa sömuleiðis verið áhugasamir.  Ljóst er að rannsóknir á straumum og straumahegðan í orkuríkum röstum við ströndina er forsenda þess að áætla umfang orku á hverjum stað og möguleika á nýtingu hennar.  Þær mælingar hafa nánast hvergi farið fram á slíkum stöðum.  Slikar mælingar falla án nokkurs vafa innan verkahrings Hafró.  Stofnunin er reiðubúin að takast þær á hendur en til þess þarf að lágmarki að kaupa nokkrar vandaðar straumsjár.  Þær eru alldýr tæki, eða um 5 milljón krónur stykkið.  Þeim er lagt á botn í nokkra mánuði; safna gögnum um straumhraða með dopplermælingum og eru síðan endurheimtar.  Valorka og Hafrannsóknastofnun hafa í sameiningu sótt um stuðning til Tækjasjóðs Rannís til kaupa á slíkum mælum, en tvívegis verið hafnað.  Slíkur er skilningurinn á nýrri orkutækni; en vonandi áttar Rannís sig fljótlega á nauðsyn þess að fylgja nútímanum í orkurannsóknum.

Valorka hefur einnig átt í viðræðum við Sveitarfélagið Hornafjörð.  Annarsvegar hafa þær snúist um aðstöðu vegna fyrirhugaðra flekaprófana hverfilsins, en hinsvegar um athuganir á sjávarorku á svæðinu og möguleika á að koma upp prófunarmiðstöð.  Tengiliður Valorku í þessum viðræðum hefur verið Hjalti Þór Vignisson bæjarstjóri, en hann er áhugasamur um framfarir á þessu sviði.  Hagsmunir Hornafjarðarbæjar eru augljóslega miklir þegar kemur að nýtingu sjávarorku:  Svæðið tilheyrir svokölluðum köldum svæðum; þar eru hvorki möguleikar á vatnsaflsvirkjunum né jarðhita.  Sjávarfallastraumar eru miklir í Hornafjarðarósi, sem unnt væri að nýta með tiltölulega einföldum aðgerðum í þeirri lygnu sem þar er og ekki þarf að leiða orkuna um langan veg.  Straumasvæðið undan Austfjörðum er gífurlega víðfeðmt og öflugt.  Síðast en ekki síst þá er ölduorka hvergi meiri við norðanvert Atlantshaf en við suðurströnd Íslands.  Ljóst má því vera að staða Hornafjarðar í orkumálum mun breytast verulega þegar nýting sjávarorku hefst að einhverju marki.

Fleiri öflugum stoðum hefur verið skotið undir þennan hóp hagsmunaaðila á sviði sjávarorkurannsókna á þessu ári.  Háskólinn í Færeyjum, öðru nafni Fróðskaparsetur Föroya,  hefur unnið að ýmsum rannsóknum á sviði sjávarauðlinda.  Þar á meðal hafa Færeyingar rannsakað töluvert sjávarstrauma og aðra þætti sjávarorku mun ítarlegar en hér hefur verið gert.  Skýringin kann að liggja í öðruvísi hagsmunum, þar sem orkuþörf þar er nú fullnægt að mestu leyti með keyrslu dísilvéla og því brýn þörf á nýrri og umhverfisvænni orkuöflun.  Sjávarfallastraumar eru stríðir í sundunum milli eyjanna og því er sá kostur mjög nærtætkur.  Því var erindi Valorku vel tekið þegar leitað var eftir samstarfi.  Tengiliður Fróðskaparsetursins er Bardur Niclasen haffræðingur.  Mikill fengur er að þessu samstarfi.  T.d. verður fróðlegt að skoða hvernig nýta megi reynslu Færeyinga við fyrirhugaðar rannsóknir sjávarorku hér; skoða samvinnu á sviði tækniþróunar og eins gefur þetta samstarf færi á fjármögun í samnorræna sjóði. 
Annar nýr samstarfsaðili á sviði sjávarorkurannsókna er Háskólinn á Akureyri.  Þetta samstarf er tilkomið gegnum tengsl Hafrannsóknastofnunar, en Steingrímur Jónsson haffræðingur er náinn samstarfsmaður Héðins Valdimarssonar og starfsmaður Hafrannsóknastofnunar, jafnframt því sem hann er prófessor við Háskólann á Akureyri.  Með aðilid þeirra Héðins og Steingríms er skotið eins faglegum stoðum undir straumarannsóknirnar og kostur er.

 

 

 

 

 

Prófunaraðstaða á Hornafirði

Details
Valdimar Össurason logo
Fréttir
02 ágúst 2012
Skoðað 22256 sinnum

hornafjardarhofnÍ lok júlí 2012 fór verkefnisstjóri Valorku á Hornafjörð til að skoða aðstæður til fyrirhugaðra sjóprófana.  Bæjarstjórn Hornafjarðar hefur boðið aðstöðu og aðstoð.  Ekki stóð á efndunum í því efni.  Sigurður Guðmundsson hafnsögumaður tók á móti verkefnisstjóra og sigldi með hann á hafnsögubátnum Birni lóðs inn á Mikleyjarál.  Þar virðast hinar ákjósanlegustu aðstæður til prófana.

Meðfylgjandi mynd gefur hugmynd um afstöðuna en hún er tekin að láni af vef Hornafjarðarbæjar.  Horft er til ASA yfir Hornafjarðarhöfn.  Innsigling að höfninni er þar frá hægri en ósinn sjálfur sést ekki.  Vinstra megin sér í Mikleyjarsund, milli Mikleyjar fjær og Álaugareyjar nær en sú síðarnefnda er nú tengd fastalandinu með uppfyllingu.  Állinn er því eins nálægt höfninni og hugsast getur en samt utan skipaumferðar.

Aðstæður til prófanana í Mikleyjarál virtust í fljótu bragði jafnvel álitlegri en áður var talið.  Líklega væri hentugast að leggja prammanum fram af húsinu sem sjá má á myndinni næst bakkanum í Álaugarey.  Þar er straumhraði mikill; fer líklega töluvert yfir 2 m/sek þegar mest er.  Það er nokkuð meiri straumhraði en áætluð marknotkun hverfilsins en umframálagið nýtist til prófana og unnt er að lyfta hverflinum uppúr yfir stífasta fallið.  Mjög aðdjúpt er við bakkana og var unnt að reka stefni lóðsbátsins á þurrt en samt hafa 8 m dýpi við skut.  Því er möguleiki að leggja flekanum nálægt bakkanum, með festar á aðra hlið uppí land en hinsvegar í dreka.  Þarf þó að taka tillit til iðustrauma við bakkann. 

Líklega verður heppilegast að setja flekann saman við smábátahöfnina, en hún er hægra megin við miðju á myndinni.  Grindinni yrði þá rennt í sjóinn niður skábraut sem þar er og sett saman að fullu við flotbryggjuna.  Boðin er aðstoð lóðsbátsins við að koma flekanum á sinn stað, svo og aðstaða til geymslu búnaðarins í porti hjá áhaldageymslu sveitarfélagsins.  Í kaffistofu hafnarvogar hitti verkefnisstjóri m.a. umsjónarmann áhaldahússins og fleiri ráðamenn á staðnum. 

Bæjarstjórnendur á Hornafirði hafa sýnt sjávarfallaorku meiri áhuga en aðrar sveitarstjórnir.  E.t.v. má rekja þann áhuga að einhverju leiti til nálægðar staðarins við þessi miklu náttúruöfl.  Allt atvinnulíf þessarar miklu útgerðarmiðstöðvar er komið undir skilningi á sjávarföllum og lausnum á vandamálum sem þeim tengjast.  Ekki er því að undra að menn vilji fylgjast með öllum möguleikum sem kunna að opnast varðandi nýtingu þessarar orku.  Með hinu góða boði sínu um aðstöðu og aðstoð tekur Hornafjarðarbær forystu meðal sveitarfélaga hérlendis og þó víðar væri leitað.  Aðstæður í Hornafirði eru einstæðar og þar gæti verið skynsamlegt að koma upp alþjóðlegri prófunarstöð í líkingu við hina skosku EMEC, nema jafnvel enn fjölhæfari.  Með Valorka hverflunum eru Íslendingar nú þegar í fremstu röð varðandi nýtingu lághraða sjávarorku.  Við höfum núna einnig tækifæri til að taka forystu á sviði hverflaprófana með hinni einstöku aðstöðu á Hornafirði.  Nýting hinnar hreinu sjávarorku mun hefjast af miklum krafti innan fárra ára.  Því er mikilvægt að hérlendis séu greind tímanlega þau sóknarfæri sem því fylgja og þau nýtt til atvinnu- og verðmætasköpunar.

Hafi Hornfirðingar hinar bestu þakkir fyrir sína aðstoð og skilning varðandi verkefni Valorku.

Sjóprófanir undirbúnar

Details
Valdimar Össurason logo
Fréttir
11 maí 2012
Skoðað 21745 sinnum

Í sumar verða kaflaskil í virkjanasögu Íslands þegar fyrsti íslenski sjávarfallahverfillinn verður prófaður í sjó.  Aðeins einu sinni áður hefur hverfill verið nýttur í sjó við Íslandsstrendur, en það var þegar virkjað var í Brokey fyrir nær einni öld og þá notuð erlend uppfinning.  Valorka-hverflarnir eru íslensk uppfinning og í fremstu röð hverfla til nýtingar hægra  strandstrauma.  Þessar sjóprófanir verða einnig merkur áfangi í þróunarferli Valorka-hverflanna.

Að undanförnu hefur verið unnið að undirbúningi að smíði líkans af gerðinni V-5, en hún verður fyrsta gerð hverfilsins til prófunar.  V-5 hefur komið vel út í kerprófunum og sýnt yfirburði yfir fyrri tegundir, þó V-4 standi henni ekki mikið að baki.  Nú liggja fyrir áætlanir um smíðina í öllum megindráttum.  Þetta þróunarstig felst í smíði og prófun mun stærra hverfillíkans en notað var í kerprófunum.  Hverfilhjólin verða tvö tvöföld sett eða 20 blöð samtals;um  2,5 m í þvermál.  Þeim verður fest neðan í fleka sem flýtur á yfirborði, en honum verður lagt í sundi þar sem sjávarfalla gætir. Flekinn verður um 7x7 m að stærð; fleytt með sverum rörum.  Búnaður er til að lyfta hverflunum úr sjó í flutningi og til skoðunar, og búnaður til átaks- og straumhraðamælinga. Tilgangur prófananna er m.a. að sannreyna orkunýtingu og ýmsa þætti í hönnun hverfilsins.

Gert er ráð fyrir að prófa hverfilinn fyrst í Hornafirði; í ál milli Álaugareyjar og Mikleyjar sem nefnist Mikleyjaráll.  Þarna ligjga fyrir ágætar mælingar á aðstæðum, s.s. stærð sundsins og straumhraða.  Aðstæður eru þar að mörgu leyti ákjósanlegar fyrir prófanir með fleka, þar sem ölduálag er fremur lítið og stutt er milli sjósetningar- og prófunarstaðar.  Gangi allt að óskum er líklegt að prófað verði á fleiri stöðum á landinu í sumar.

Mikið einvalalið hefur komið að undirbúningi þessa prófunaráfanga.  Nýlega bættist verkefninu góður liðsauki.  Kristján Björn Ómarsson; hugvitsmaðurinn að baki hinum nýja blöndungi Fjölblendis, hefur veitt mikilvæga ráðgjöf um hönnun og smíði; Grétar Franksson hjá Ísótækni hefur einnig komið að hönnuninni og mun taka að sér nokkra smíðaþætti og Ingvar Magnússon hjá Viz ehf mun taka að sér ýmis verkefni, en hann er hönnuður og sérfræðingur í SolidWorks hönnunarforriti.  Fyrri samstarfsaðilar hafa unnið ötullega að þessum áfanga, s.s. Vigfús Arnar Jósepsson sem sér um verkfræðilega útreikninga og Aðalsteinn Erlendsson sem veitt hefur alhliða ráðgjöf.  Þá mun Jóhann Eyvindsson koma verulega að smíði og hönnun flekans en hann hefur reynslu í járnsmíði, teiknun o.fl.

 

Alþingi tekur tillögu um sjávarorku til umræðu

Details
Valdimar Össurason logo
Fréttir
04 febrúar 2012
Skoðað 22116 sinnum

althingiAlþingi hefur nú tekið tekið til meðferðar þingsályktunartillögu 22ja þingmanna úr öllum flokkum um "rannsóknir á umfangi og nýtingarmöguleikum sjávarorku við Ísland".  Tillagan var lögð fram á vorþingi í fyrra en ekki tekin til umræðu.  Aftur var tillagan lögð fram í oktober sl, en það var fyrst nú í gær sem hún var tekin til fyrri umræðu. 

Tillagan er komin fram í kjölfar funda sem Valdimar Össurarson átti við nokkra þingmenn og kynninga Valorku á málefninu.  Fljótlega eftir að Valorka ehf hóf störf varð ljóst að þróun hverflanna myndi fljótlega stöðvast hérlendis ef ekki tækist að hefja lágmarksrannsóknir.  Valorka ehf er fyrsti og eini aðilinn sem þróar tækni til nýtingar sjávarfallastrauma utan stranda.  Á því sviði hafa engar rannsóknir farið fram.  Ekki liggur fyrir ein einasta vísindaleg mæling á straumstyrk í annesjaröstum, og því síður er vitað um nánari aðstæður til virkjana.  Á nokkrum stöðum hefur verið mælt inni á fjörðum, einkum í tengslum við fiskeldi eða samgönguframkvæmdir og á örfáum stöðum hafa verið skoðaðar aðstæður til sunda- eða stífluvirkjana. 

Valdimar átti viðtöl við nokkra þingmenn, m.a. Skúla Helgason, þáverandi formann iðnaðarnefndar, árið 2010 og greindi frá þörf þess að hefja rannsóknir á sjávarorku við landið.  Gerði hann grein fyrir stöðu síns verkefnis; stöðu tækniþróunar á þessu sviði á heimsvísu ásamt stöðu rannsókna af þessu tagi í grannlöndum okkar.  Lagði hann áherslu á að rannsóknir af þessu tagi væru nauðsynlegur liður í þeirri stefnumótunarvinnu sem nú fer fram á sviði orkumála, auk þess sem Ísland yrði að líta til fjölbreyttra orkukosta og framleiðslutækifæra til að standast alþjóðlegan samanburð.  Í kjölfar þessara funda tók Valdimar saman skýrsluna "Sjávarfallaorka og hagsmunir Íslendinga" og sendi m.a. öllum þingmönnum til kynningar.  Skúli hefur reynst mjög áhugasamur um þetta mál og innan skamms var komin fram þessi þingsályktunartillaga, borin fram af 22 þingmönnum úr öllum flokkum á Alþingi.  Þetta mikla fylgi við málefnið sýnir eindreginn vilja alþingismanna og flokka við þetta mál, og má öruggt heita að tillagan nái fram að ganga.  Hún er í umfjöllun atvinnuveganefndar Alþingis.

Þingsályktunartillagan er í megindráttum í samræmi við þær þarfir og hagsmuni sem Valdimar hefur verið að kynna fyrir stjórnvöldum.  Hún er fyrsta stefnumótun stjórnvalda á sviði sjávarorku.  Með henni lýsa stjórnvöld því annarsvegar yfir að þau ætli að kanna umfang og nýtingarmöguleika sjávarfallaorku, en hitt er ekki síður mikilvægt að stjórnvöld munu hér eftir stuðla að framgangi þróunar á sviði sjávarorkutækni.  Með samþykkt tillögunnar eru Íslendingar því formlega komnir í hóp þeirra ríkja sem nú leita lausna til hagkvæmrar notkunar sjávarorku.  Þar erum við nú þegar í fremstu röð að því er varðar virkjun annesjastrauma utan fjarða; enginn hverfill er þar kominn lengra í þróun en Valorka hverflarnir.  Einn galla má þó finna á þessari tillögu sem nauðsynlegt er að slípa af í meðförum nefndar.  Talað er um það í megintexta að leggja áherslu á rannsóknir á þau svæði "sem ætla má að uppfylli hagkvæmnikröfur".  Í ljósi þess að öll tækni er nú á þróunarstigi þarf ekki að orðlengja hve þessi setning stenst illa.  Ef einungis ætti að taka mið af "hagkvæmnikröfum" þá yrðu engin svæði rannsökuð þar sem ekki er unnt að sýna fram á hagkvæmni neins þeirra við óbreytta tækni.  Þannig hugsunarháttur er hinsvegar út í hött þegar haft er í huga annarsvegar að hér er um að ræða rannsóknir á auðlind sem næstu kynslóðir munu nota og hinsvegar þá framþróun í hagkvæmum lausnum sem nú er að verða, t.v. með Valorka hverflunum.  Sé fyrirhugað notagildi þeirra haft í huga má leiða verulegum líkum að því að virkja megi allar helstu rastir landsins á hagkvæman hátt.  Þennan vankant þarf því að sníða af hinni annars ágætu tillögu.

Valorka ehf hefur haft forgöngu um að koma á fót verkefninu Rannsóknamiðstöð sjávarorku og efnt til samvinnu við Hafrannsóknastofnun og Verkís um framkvæmd þess.  Verkefnið miðar að þeim rannsóknum af þvi tagi sem þingályktunartillagan snýst um, og að því standa þeir aðilar sem bæði hafa mesta þekkingu á þessum rannsóknum og þeir sem stendur þetta verkefni næst í stjórnskipulegu og raunhæfu tilliti.  Valorka ehf hefur komið á fót miklum gagnabanka um hvaðeina sem varðar nýtingu á sjávarorku; rannsóknir erlendis; stefnumörkun ríkja og stöðu tækniþróunar.  Hluta þeirrar rannsóknarvinnu má sjá í ársyfirliti hér.  Auk þess er Valorka eina fyrirtæki landsins sem vinnur að tækniþróun á sviði sjávarorku og hefur mestan hag af rannsóknum á því sviði.  Hafrannsóknastofnun hefur stjórnskipulegt hlutverk á sviði sjávarrannsókna og býr yfir bestri þekkingu og búnaði til þess.  Rannsóknirnar munu falla vel að öðrum verkefnum Hafró og niðurstöðurnar nýtast í ýmsum tilgangi.  Verkís sér um viðhald og uppfærslu eina sjávarfallalíkans landsins og mun nýta rannsóknarniðurstöður til uppfærslu á því.  Verkís hefur auk þess tekið þátt í ýmsum rannsóknum á sjávarorku innanfjarða og býr yfir þekkingu og reynslu á því sviði.  Með stofnun Rannsóknamiðstöðvar sjávarorku hefur því verið undirbúið það verkefni sem hér fær vonandi stuðning af stefnumörkun stjórnvalda með samþykkt þingsályktunartillögunnar.  Sjóðakerfið hefur verið verkefninu andsnúið hingaðtil, en vonandi verður nú breyting á því, þannig að unnt verði að kaupa nauðsynleg og vönduð mælitæki.

Hinum framsýnu flutningsmönnum tillögunnar eru hér með færðar þakkir og vonandi fær tillagan góðan framgang í Alþingi.  Þjóðinni er hér með óskað til hamingju með þá stefnumörkun sem hér er hafin varðandi rannsóknir á hinum gífurlegu orkuauðlindum sjávar.

Fleiri fréttir ...

  1. Áramótapistill
  2. V-5 lofar góðu í fyrstu prófunum
  3. Landsbankinn styrkir Valorka verkefnið
  4. Framundan hjá Valorku

Subcategories

Page 8 of 12
  • Start
  • Prev
  • 3
  • 4
  • 5
  • 6
  • 7
  • 8
  • 9
  • 10
  • 11
  • 12
  • Next
  • End

Fréttir

  • Nýr hverfill reynist umfram væntingar
  • Jákvæður fundur með ráðherra
  • Sjávarorka 2025 - ný skýrsla frá Valorku
  • Orkuumræða á villigötum
  • Val-X í þróun
  • Afrekaskrá stjórnvalda 2018
  • Sjöföldun virkjanlegrar sjávarfallaorku með 3.kynslóð hverfla
  • Enn hindra stofnanir verkefnið
  • Staða verkefnisins haustið 2017
  • Misskilja stjórnvöld Parísarsamkomulagið?
  • Orkusjóður eyðilagður fyrir "mistök"
  • Ráðherra og stofnanir brutu á rétti Valorku
  • Árangursríkt en vanmetið þróunarstarf
  • Ámælisverð framganga iðnaðarráðherra
  • Góður gangur í þróunarstarfi

 Valorka ehf. | Skógarbraut 1104 | 235 Reykjanesbær | Sími 426 5900 og 862 2345

Bootstrap is a front-end framework of Twitter, Inc. Code licensed under Apache License v2.0. Font Awesome font licensed under SIL OFL 1.1.