Umboðsmaður Alþingis hefur nú kveðið upp álit sitt í máli því sem Valorka ehf beindi til hans vegna ólögmætra styrkveitinga Orkusjóðs árið 2015; vanhæfis Árna Sigfússonar og ólögmætrar framgöngu Ragnheiðar Elínar Árnadóttur iðnaðar- og viðskiptaráðherra í tengslum við þá veitingu.

Umfjöllun umboðsmanns um málið má lesa í heild á heimasíðu embættisins, en niðurstaða hans er annarsvegar sú að Árni Sigfússon hafi, sem formaður ráðgjafarnefndar Orkusjóðs, brotið vanhæfisreglur stjórnsýslulaga þegar hann stýrði fundi þar sem stofnun undir stjórn og ábyrgð bróður hans; Þorsteins Inga Sigfússonar forstjóra Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands, var úthlutað nær fjórðungi af öllu ráðstöfunarfé Orkusjóðs til tveggja verkefna.  Ennfremur telur umboðsmaður Alþingis að gerðir Ragnheiðar Elínar Árnadóttur iðnaðar- og viðskiptaráðherra hafi ekki verið í samræmi við vandaða stjórnsýsluhætti, en með birtingu upplýsinga um málefni Valorku gekk hún á svig við jafnræðisreglu og meðalhófsreglu stjórnsýslulaga.  

Um leið og Valorka ehf fagnar réttlátum, og að mörgu leyti fyrirsjáanlegum, úrskurði umboðsmanns í þeim atriðum sem hann tók til athugunar, er lýst nokkrum vonbrigðum um takmörkun rannsóknar hans, enda beindist kvörtun Valorku að nokkuð fleiri atriðum.  Ýmislegt fleira var ámælisvert við úthlutun Orkusjóðs og framgöngu ráðherra, eins og rakið hefur verið hér í fyrri fréttum á vefsíðunni.  Það verður t.d. að teljast slæmt dæmi um bananalýðveldið Ísland að Nýsköpunarmiðstöð Íslands, sem samkvæmt lögum á að styðja lítil frumkvöðlafyrirtæki við að koma sínum nýsköpunarverkefnum í framkvæmd og fær til þess 1,5 milljarð króna af fjárlögum á þessu ári, skuli leyfa sér að fara gegn þessum sömu frumkvöðlaverkefnum; skjólstæðingum sínum, með því að sækja um fé í hinn fjársvelta Orkusjóð.   Sjóðurinn hefur til styrkja 19,5 milljónir á ári.  Stofnunin hefur yfir að ráða her sérfræðinga á launum hjá skattgreiðendum; sérhæfðum í styrkjaumsóknum; hún veður í milljörðum af ríkisfé og nýtir sér blygðunarlaust kunningja- og fjölskyldutengsl.  Þar á ofan býr Nýsköpunarmiðstöð yfir trúnaðarupplýsingum um skjólstæðinga sína sem hún getur nýtt sér til að standa betur að vígi gagnvart þeim í styrkumsóknum.  

Valorku var gert skylt, frá hendi Tækniþróunarsjóðs, að gera samstarfssamning við Nýsköpunarmiðstöð um faglega "handleiðslu".  Blekið á samningi Valorku og NMÍ var hinsvegar vart þornað þegar NMÍ gekk gegn hagsmunum Valorku með því að hirða fjórðung af styrkfé Orkusjóðs.  

Valorka ehf hefur unnið að verkefnum sínum í rúm sjö ár; einu tækniþróun íslendinga á sviði sjávarorkunýtingar, og náð árangri í ýmsum efnum eins og rakið er hér á síðunni.  Eftir að loksins fengust styrkir frá samkeppnissjóðum árið 2009 hefur verkefnið einkum verið styrkt af Tækniþróunarsjóði.  Þar er gerð krafa um 50% mótframlag styrkþega, en ekki er von um að meðaljón rífi slíkt upp úr eigin vasa.  Því gerir stuðningsumhverfið ráð fyrir samfjármögnun tveggja eða fleiri samkeppnissjóða.  Eini opinberi samkeppnissjóðurinn sem styður við orkuþróunarverkefni er Orkusjóður, og hefur sjóðurinn stundum á árum áður þannig stutt verkefni Valorku, þó fjársveltur sé af stjórnvöldum.  Nú var þessi mótfjármögnunarmöguleiki frá Valorku tekinn með ólögmætum hætti og frændhygli, og verkefnið þannig skilið eftir á vonarvöl.  Verkefni NMÍ sem styrk hlutu, s.s. hin svonefnda ljósvarpa, höfðu hinsvegar alla möguleika á stuðningi úr mikið öflugri sjóðum s.s. AVS; þróunarsjóði sjávarútvegsins.  Hér var því farið eins öfugt að hlutunum og hugsast gat; spilling og frændhygli réði ferðinni í stað réttsýni og vandaðra stjórnunarhátta.

Ragnheiður Elín Árnadóttir hefur orðið uppvís að því annarsvegar að hylma yfir með sínum flokksgæðingi sem hún skipaði án auglýsingar og án hæfis í starf formanns ráðgjafarráðs Orkusjóðs.  Í öðru lagi hefur hún orðið ber að því að ráðast af offorsi og ójöfnuðu gegn litlu sprotafyrirtæki; nýsköpunarfyrirtæki sem hún hefur frumskyldu við að vernda gegn ofstopa stjórnkerfisins.  Það offors Ragnheiðar Elínar felst í því að hún birti á opinberum vef atvinnuvegaráðuneytisins upplýsingar um styrki sem Valorka ehf hefur hlotið frá upphafi.  Nú er það svo að styrkir af opinberu fé eiga ekki að vera leyndarmál; ekki fremur en upplýsingar um laun og aðrar greiðslur af opinberu fé.  Brot ráðherra fólst í því að upplýsingarnar voru birtar sem hefndaraðgerð vegna umkvartana Valorku undan góðvinum hennar og hennar gerðum; þær voru rifnar úr öllu samhengi og settar fram í þeim tilgangi að sverta orðspor Valorku, enda voru ekki um leið birtar upplýsingar um neina aðra styrkþega; ekki var sagt hvaða árangur náðist fyrir styrkina né annað sem skýrt gæti upphæðina.  Ráðherra fór því fram eins og hrotti gagnvart sínum skjólstæðingi; hegðun sem ekki er unnt að líða af ábyrgum ráðherra.

Styrkir þeir sem Valorka ehf hefur þegið af opinberu fé nema u.þ.b. 50 milljónum; um upphæð þeirra fór ráðherra nokkuð nærri lagi þó ekki væri hún nákvæm.  Af þeim hafa líklega um 28 milljónir gengið til launagreiðslna yfir 7 ár; tæpar 10 milljónir eru vegna húsnæðis fyrir verkefnið, og afgangurinn um 12 milljónir hefur farið í efni, verkfæri, mælitæki og annað sem verkefninu hefur verið nauðsynlegt á þessu 7 ára tímabili.  T.d. hefur verkefnið þurft að fjárfesta í nokkrum dýrum mælitækjum.  Til að setja þessa upphæð í eitthvert skiljanlegt samhengi má benda á þá staðreynd að einn starfsmaður opinbers orkufyrirtækis er með 1,7 milljónir á mánuði í laun, eða rúmar 20 milljónir á ári af opinberu skattfé.  Allt það styrkfé Valorku yfir 7 ár sem Ragnheiður Elín ráðherra býsnast svo mjög yfir, myndi því ekki hafa dugað þessum eina starfsmanni hennar til lífs í 3 ár!  Sannast á þessu að ekki er sama Jón og Sérajón í augum þessa brotlega ráðherra.

Valorka mun, í famhaldi af þessum niðurstöðum umboðsmanns Alþingis, rita stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis og fara framá að ráðherra verði látin sæta viðeigandi ábyrgð fyrir brot sín og þeirra sem undir hennar ábyrgðarsvið heyra.  Hlýtur í því efni að koma til álita afsögn ráðherra.

Einnig mun Valorka leita eftir því við stjórnvöld að bættur verði skaði sá sem Valorka hefur orðið fyrir með hinum ólögmætu gerningum.  Eftir er að skoða nánari útfærslu á þessu.

Þá kemur vart til greina að hinn brotlegi formaður ráðgjafarnefndar Orkusjóðs geti setið áfram í starfi.  Hann getur vart talist trúverðugur eftir það sem undan er gengið, enda má lesa það út úr niðurstöðu umboðsmanns.

Nánar í síðari fréttum