Að undanförnu hafa orðið nokkrar umræður um orkumál hérlendis.  Landsvirkjun hefur farið mikinn og leitast við að koma stórvirkjanadraumum sínum áfram á þeim grundvelli að hérlendis ríki "raforkuskortur".  Vissulega er vatnsbúskapur landsins slæmur um þessar mundir.  Við þær aðstæður á auðvitað að draga úr sölu til stærstu notendanna, sem eru erlendar álbræðslur, en ekki láta ástandið bitna á eigendum virkjananna; Íslendingum sjálfum.  Landsvirkjun vill enga orkunýtingu sjá nema þá sem fyrirtækið stendur sjálft fyrir, og því hefur Landsvirkjun leynt og ljóst beitt sér gegn sjávarorkunýtingu og gegn verkefnum Valorku.

Nýjasta útspil Landsvirkjunar er skýrsla um orkumál, sem í orði kveðnu er sögð unnin af "óháðri" þriggja manna nefnd, en túlkar svo eindregið sjónarmið Landsvirkjunar að faðerninu verður ekki neitað.  Hér á eftir er birt tilkynning sem Valorka sendi fjölmiðlum og þingmönnum í þessu tilefni.  Í ljósi reynslunnar er þó líklegt að þessir aðilar muni stinga öllum athugasemdum undir stól; enginn má andmæla Landsvirkjun.  

                  "Í tilefni af nýútkominni skýrslu um orkumál og umræðum ráðamanna um nýsköpunar- og orkumál, vill Valorka koma eftirfarandi leiðréttingum á framfæri:
Skýrslan er alls ekki óvilhöll, heldur túlkar hún einhliða þau sjónarmið Landsvirkjunar að nauðsynlegt sé að drekkja stórum landsvæðum í virkjanalónum og spilla víðernum landsins með vindmylluturnum. Því er ámælisvert að ráðamenn taki undir slíkt gagnrýnislaust og fjölmiðlar og þingmenn láti hjá líða að spyrja gagnrýnna spurninga. Áberandi vanþekkingar og þöggunar gætir á málefnum sjávarorku; þar þarf að bæta úr. Í skýrslunni og nýlegri umræðu er litið framhjá ýmsum staðreyndum:
Stærsta orkuauðlind Íslands, og sú sem næstu kynslóðir munu þurfa að nýta í sátt við náttúruna, er sjávarorka. Þetta vita þeir sem einhverja þekkingu hafa á orkumálum, en stórir hagsmunaaðilar hafa, með dyggri aðstoð stjórnvalda, haldið niðri umræðu og þróun á því sviði. Þrátt fyrir að íslensk stjórnvöld hafi látið hjá líða að hefja rannsóknir á umfangi og nýtingarmöguleikum þessarar orkulindar er heildarumfangið ljóst í stórum dráttum, og þar með að virkjanleg sjávarfallaorka er margfalt umfangsmeiri en nýtanlegar orkulindir á landi. Tækni til nýtingar hennar mun verða aðgengileg á þeim tíma sem skýrslan nær til.
Tækniþróun til nýtingar sjávarorku hefur verið ör; bæði ölduorku og sjávarfallaorku. Sjávarfallaorka er komin nær markaðsstigi og þegar eru nokkrar virkjanir farnar að keyra inn á neyslunet. Flestar eru þær skrúfuhverflar sem þurfa meiri straumhraða en algengastur er, t.d. hér við land. Nú eru t.d. Færeyingar komnir langt framúr hinum stöðnuðu íslensku stjórnvöldum, með því að fyrirtækið Minesto er þar komið á fullt með prófun sinna hverfla.
Frá 2009 hefur Valorka unnið að þróun íslenskrar uppfinningar; hverfla til nýtingar sjávarfallaorku af þeim straumhraða sem algengur er við strendur, m.a. hérlendis. Hverfillinn er einfaldari, ódýrari og meðfærilegri en hinir erlendu skrúfuhverflar, en þó stærri, mun fjölhæfari og umhverfisvænni. Ljóst er að með fullnaðarþróun og framleiðslu á slíkri tækni gætu Íslendingar orðið leiðandi á þessu sviði orkuskipta og framtíðarorkuöflunar á heimsvísu. Valorka er eini aðilinn hérlendis í þróun sjávarorkutækni.
Áðurnefnd skýrsla um orkumál nefnir verkefni Valorku ekki einu orði. Þau tvö verkefni á sviði sjávarorku sem þar eru nefnd lúta bæði að frumkönnun nýtingar á afmörkuðum stöðum, en eru á engan hátt lýsandi fyrir stöðuna á þessu sviði.
Stjórnvöld hafa lagt sig fram um að stöðva þróunarverkefni Valorku. Verkefnið fékk í byrjun nokkra styrki til að komast af stað og í ljós kom að tæknin stóð að öllu leyti undir þeim væntingum sem til hennar eru gerðar. Þegar hverfillinn var kominn á stig sjóprófana árið 2018 tóku stjórnvöld skyndilega þá ákvörðun að stöðva allan stuðning við það. Tækniþróunarsjóður Rannís hefur synjað öllum umsóknum frá þeim tíma; og vill þar með ónýta það almannafé sem þegar hefur verið lagt í þessa þróun. Nýstofnaður Loftslagssjóður Rannís styrkir helst verkefni sem ekki koma loftslagsmálum við og hefur synjað öllum umsóknum Valorku. Orkusjóður styrkti verkefnið í byrjun en hætti því skyndilega, og veitir nú einkum almannafé til stuðnings fyrirtækja í arðsömum rekstri (sjá birtan lista). Ekkert eftirlit virðist vera með rekstri framangreindra sjóða. Þar er gríðarlegum upphæðum af almannafé ráðstafað eftir geðþótta fárra einstaklinga og hagsmunum stórra aðila. Ekki þarf að rökstyðja úthlutanir og umsækjendum er meinað að leita réttar síns, enda eru sjóðirnir undanþegnir stjórnsýslulögum. Slík er meðferð almannafjár í svonefndu „stuðningsumhverfi nýsköpunar“. Alþingi bregst eftirlitsskyldu sinni og fjölmiðlar sömuleiðis. Enginn spyr gagnrýnna spurninga og ábendingum sem þessari er stungið undir stól.
Fleiri ráðum er beitt til að stöðva verkefni Valorku. Eftir bankahrunið lýstu stjórnvöld því yfir að stutt yrði við nýsköpun. Þá hafði bandaríkjaher nýlega gefið þjóðinni húseignir á Keflavíkurvelli og var eitt húsanna tekið undir frumkvöðlamiðstöð, þar sem m.a. Valorka fékk aðstöðu. Að fáeinum árum liðnum gleymdu stjórnvöld fyrirheitum sínum; hentu öllum frumkvöðlum út á götu og „seldu“ húsið til velþóknanlegra aðila. Allt í kyrrþey. Þetta, ásamt skorti á eðlilegum fjárstuðningi, hefur haldið verkefni Valorku í stöðvun frá 2018.
Stjórnvöld hafa vanrækt að hefja skipulegar rannsóknir á umfangi og nýtingarmöguleikum sjávarorku við Ísland. Valorka fékk því til leiðar komið að nokkrir framsýnir þingmenn lögðu fram þingsályktunartillögu um úrbætur í því. Tillagan velktist nokkuð í þinginu og m.a. reyndi Landsvirkjun af öllum mætti að hindra framgang hennar. Svo fór þó að vorið 2014 var hún samþykkt samhljóða á Alþingi. Ráðherra var falið að skipa starfshóp til að móta tillögu um framkvæmdina. Þannig var þó valið í þann hóp að málið var drepið niður; þeim var haldið úti sem mest höfðu barist fyrir málinu. Hópurinn lagði þó til byrjunarrannsóknir í Látraröst. Valorka gerði tilraun til þess, í samvinnu við Hafrannsóknarstofnun og fleiri, að fá nauðsynlegan búnað í þær rannsóknir. Rannís hafnaði hinsvegar öllum umsóknum um stuðning og engan stuðning var að hafa annarsstaðar. Landsvirkjun hefur beitt sér mjög gegn öllum vekefnum Valorku; bæði leynt og ljóst. Landsvirkjun er hið ráðandi afl í orkumálum landsins, og ekkert kemst á dagskrá í orkumálum hérlendis nema það þjóni hagmunum Landsvirkjunar hverju sinni. Nauðsynlegt er að Alþingi losni undan þessu ofurvaldi og verði sjálfstæðara í sinni stefnumótun á sviði orkumála. Skýrsla af því tagi sem nú hefur birst þjónar hagsmunum Landsvirkjunar fremur en þjóðarhagsmunum.
Nýr ráðherra nýsköpunar sagði í viðtali eftir að skýrslan kom út að „við þurfum að horfa til nýrra tæknilausna“. Hér fara ekki saman orð og gerðir, eins og m.a. má sjá hér framar. Stjórnvöld hafa staðið illa að stuðningi við hugvitsmenn og frumkvöðla sem vilja hefja nýsköpun. Þannig hefur samtökum þessa fólks verið synjað um stuðning af Alþingi og ríkisstjórn. Samtök frumkvöðla og hugvitsmanna og KVENN reka umfangsmikla fræðslu og ráðgjöf í þágu nýsköpunar og undirbúa núna verkefni í samstarfi við ÖBÍ, Þroskahjálp og fleiri, sem miðar að því að auka möguleika fatlaðra til nýsköpunar. Fyrsta verk nýs ráðherra nýsköpunar var að svipta félögin þeim litla rekstrarstuðningi sem þau nutu á síðasta ári. Þegar ráðuneytið var spurt um úrræði vísaði það á samkeppnissjóði og önnur slík happdrætti. Þau viðbrögð eru í andstöðu við nýleg lög um nýsköpun sem eiga að tryggja gjaldfrjálsa ráðgjöf á fyrstu stigum nýsköpunar en ekki afnema hana. Undirritaður hefur um nokkurn tíma verið formaður SFH og þekkir því nokkuð vel til viðhorfa á því sviði. Tekið skal fram að samstarfsverkefnið um nýsköpun fatlaðra fékk lítilsháttar undirbúninsstyrk á fjárlögum þessa árs, en það verkefni kann að eyðileggjast ef félögin sjálf neyðast til að hætta starfsemi vegna fjárskorts. Enn bendir ekkert til þess að stjórnvöld hyggist styðja við starfsemi frumkvöðla á fyrstu stigum; hvorki einstök verkefni eins og hér var nefnt, né áframhaldandi starfsemi SFH og KVENN. Skorað er á Alþingi að taka málefni nýsköpunar á frumstigum nú þegar til umræðu og hlutast til um úrbætur.
Staða verkefna Valorku er núna sú að þróunarstarfinu er haldið í frosti með þeim stjórnvaldsaðgerðum sem lýst var; að synja því um styrki þrátt fyrir faglega velgengni. Hinsvegar fékk Valorka lítilsháttar styrk frá Uppbyggingasjóði Vestfjarða; eina milljón kr, til að gera athuganir á hagkvæmni sjávarfallavirkjunar í Látraröst út frá tilteknum forsendum. Sú fjárhæð dugir skammt, enda þarfnast slíkt kostnaðarsamra rannsókna og sérfræðivinnu. Valorka mun þó kappkosta að vanda til verka, enda er hér um að ræða fyrstu skýrsluna sem gefur hugmynd um víðtæka möguleika sjávarfallavirkjana hérlendis.
Valorka hvetur fjölmiðla og alþingismenn til þess að skoða áðurnefnda skýrslu um orkumál með gagnrýnni augum en gert hefur verið. Spyrja má t.d. að eftirfarandi:
- Hvernig stendur á því að Landsvirkjun segir eitt árið að leggja þurfi dýran rafstreng til útlanda til að selja umframorku, en næsta ár segist LV þurfa að skerða raforku vegna orkuskorts?
- Í ljósi þess að langstærsti hluti orkuframleiðslu hérlendis fer til stóriðju; hver er ástæða þess að LV hótar að yfirvofandi „orkuskortur“ muni koma niður á almenningi og orkuskiptum? Stjórnvöldum er í lófa lagið að draga úr umfangi stóriðju hérlendis ef þess þarf. Orkusöluamningar eru ekki fyrirstaða í því efni; það er á ábyrgð Landsvirkjunar ef búið er að forgangsraða stóriðjunni umfram þarfir landsmanna sjálfra. Slíkir samningar eru riftanlegir.
- Í ljósi hins mikla umfangs sjávarorku hérlendis; hvers vegna er Ísland að dragast aftur út öðrum þjóðum í þróun sjávarorkutækni? Hvers vegna er íslensku framtaki haldið niðri?
- Hvers vegna er ekkert stutt við þróun sjávarorkutækni hérlendis þrátt fyrir að Íslendingar hafi núna tækifæri til þess að verða leiðandi í þróun á þessu sviði? Þurfum við ekki nýsköpun?
- Hver er ástæða þess að stjórnvöld hefta starfsemi frjálsra félagasamtaka sem vilja stuðla að nýsköpun; einu hagsmunasamtaka frumkvöðla og hugvitsmanna? Hver er stefna Alþingis í málefnum hugvitsfólks og stuðningi við frumkvöðlastarf á fyrstu stigum?
Skorað er á fjölmiðla og þingmenn að skoða þessi málefni með gagnrýnni hætti en gert hefur verið. Skorað er á þingmenn að taka þessi mál til umræðu; skapa þessari nýsköpun viðunandi skilyrði og taka þjóðarhag framyfir hagsmuni einstakra stórfyrirtækja".
12. mars 2022
Valdimar Össurarson
framkvæmdastjóri Valorku ehf
s. 862 2345