Stjórnvöld beita sér gegn sjávarorkunýtingu.  Þó hart sé tekist á um ýmislegt í íslenskri pólitík; og þó Alþingi þjóðarinnar minni stundum meira á hávaðasaman leikskóla en löggjafarsamkomu, þá virðast jafnt kjörnir fulltrúar sem stofnanir vera sammála um tvennt:  Annað er það er að drepa niður allt frumkvæði íslenskra hugvitsmanna og hitt er að gæta þess að íslensk þjóð fái ekki notið umfangsmestu og hreinustu orkuauðlinda sinna; sjávarorkunnar við strendur landsins. Verkefni Valorku hefur þannig sameinað alla stjórnmálaflokka og allar ríkisstofnanir á sviði orku og nýsköpunar um þá lágkúru að vinna gegn öllum yfirlýstum markmiðum sínum.  Mætti ekki beita samtakamættinum á uppbyggilegri hátt?

Þessu til sönnunar verður hér bent á eftirfarandi af afrekaskrá stjórnvalda á síðasta ári, til viðbótar þeirri sem fyrir var og lýst hefur verið hér á vefsíðunni: 

Brot á Parísarsáttmálanum.  Ríkisstjórnin vinnur gegn skuldbindingum Íslendinga í Parísarsáttmálanum með því að synja Valorku ítrekað um stuðning við þróun aðferðar til nýtingar sjávarfallaorku; sbr. tvær ástæðulausar synjanir Tækniþróunarsjóðs nýlega.  Í 10.gr. Parísarsamningsins segir að aðildarríkjum beri að styðja þróun tækni sem líkleg er til að stuðla að markmiðum sáttmálans á heimsvísu.  Fátt hafa Íslendingar fram að færa sem betur styður við Parísarmarkmiðin en verkefni Valorku.  Skortur á stuðningi við verkefnið er því brot á sáttmálanum; svo lengi sem það skilar árangri; eins og það hefur sannanlega gert.

Stjórnvöld spilla tækifærum til forystu á framtíðarmarkaði. Ríkisstjórnin leggst gegn möguleikum þess að Íslendingar verði leiðandi í þróun tækni til nýtingar algengustu sjávarfallastrauma á hagkvæman og umhverfisvænan hátt.  Enginn er núna kominn nær slíkri nýtingu en Valorka, en Parísarsáttmálinn er greinilega ekki á dagskrá vísinda- og tækniráðs sem stýrt er af ríkisstjórninni.

Ráðuneyti falsar skýrslu til Alþingis.  Atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra fékk beiðni frá Alþingi um skýrslu varðandi stöðu nýrra orkukosta, sem skyldi taka til sjávarfallaorku, vindorku og varmadæla.  Eftir að frestur var liðinn skilaði ráðuneytið skýrslu sem er ekki á nokkurn hátt í takti við raunveruleikann, en líkist meira óskalista Landsvirkjunar.  Þar er fölsunum og ósannindum beitt til að gera vindorkuvirkjun að eftirsóknarverðum kosti, um leið og nýtingu sjávarfallaorku er fundið allt til foráttu; einnig með ósannindum.  Ráðuneytið sveik loforð sín um aðkomu Valorku að þessari skýrslugerð, en bauð í þess stað fulltrúum Landsvirkjunar til samstarfs ásamt öðrum sem hafa beitt sér gegn verkefni Valorku.  Valorka brást við þessu með því annarsvegar að senda ráðuneytinu beiðni um leiðréttingu (sem ekki var gerð) og hinsvegar að senda forseta Alþingis beiðni um að skýrsla ráðuneytisins verði ekki tekin til umræðu án þess að um leið sé rædd vönduð skýrsla Valorku um stöðu sjávarfallaorku.  Við þeirri beiðni hefur enn ekki verið brugðist.  Villandi skýrsla ráðuneytisins í þessum efnum kemur á mjög óheppilegum tíma, þar sem vinna er að hefjast við mótun orkustefnu.  Koma þarf í veg fyrir að svo villandi skýrsla verði lögð þar til grundvallar.

Fordómar við skipun í starfshóp um orkustefnu.  Skipun starfshóps til mótunar orkustefnu er enn ein aðför atvinnuvega-og nýsköpunarráðherra að hagsmunum sem tengjast nýtingu sjávarfallaorku.  Í fjölmennum starfshópi sem ráðherra skipaði er ekki að finna einn einasta aðila með þekkingu á því sviði eða möguleikum þess.  Hversu trúverðugur er starfshópur um mótun orkustefnu sem ekki er ætlað að taka tillit til umfangsmestu orkuauðlindar landsins; þeirrar orkuauðlindar sem nýta má í mestri sátt við umhverfissjónarmið?

Ráðuneyti leggst gegn rannsóknum á sjávarorku.  Atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra hafnaði því að leggja fé til byrjunar á rannsóknum sjávarfallastrauma við Ísland, en slíkar rannsóknir höfðu þó verið lagðar til af starfshópi sem ráðherra skipaði sjálfur fyrir fáum árum.  Valorka býr yfir báti og vönduðum mælibúnaði til slíkra rannsókna, en beiðni um lítilsháttar framlag af fjárlögum var hafnað af ráðuneytinu.  Engin svör fást frá ráðuneytinu um það hvenær eða hvernig verður hagað þessum mikilvægu rannsóknum á umfangsmestu orkuauðlindum Íslands.  Þar er einungis unnið í samræmi við hagsmuni Landsvirkjunar, sem hefur beitt sér gegn verkefnum Valorku.

Atvinnuveganefnd Alþingis bregst ekki við ábendingum um mistök.  Við lagabreytingar fyrir nokkrum árum voru gerð þau mistök að Orkusjóði var í raun meinað að styðja nýsköpun í orkutækni.  Þeim mistökum var lýst hér í fyrri fréttum á síðunni.  Verkefnisstjóri Valorku fékk fund með atvinnuveganefnd Alþingis í apríl 2018 þar sem þessi mistök voru rædd.  Lofaði nefndin að málið yrði skoðað og annaðhvort beita sér fyrir úrbótum eða veita fullnægjandi skýringar.  Hvorugt hefur verið gert.  Síðari erindum Valorku til nefndarinnar hefur ekki verið svarað.  Þjóðin hlýtur að gera þá kröfu til sinnar löggjafarstofnunar að hún leiðrétti sín mistök; einkanlega þegar þau bitna á þjóðhagslega mikilvægum greinum s.s. nýsköpun og loftslagsmálum eins og hér um ræðir.

Stjórnvöld reyna að svelta nýsköpunarverkefni Valorku til dauðs.  Og rúsínan í pylsuendanum; það sem stjórnvöld hyggjast nota til að ryðja Valorku endanlega úr vegi:  Tækniþróunarsjóður hefur á einu ári tvívegis synjað verkefninu um stuðning, og þar með svipt þetta verkefni eina opinbera stuðningnum sem það hefur haft og staðið hefur undir nauðsynlegum kaupum á efni, sérfræðikostnaði, rekstri aðstöðu og launum.  Afleiðingarnar eru þær að verkefnisstjóri hefur ekki fengið laun greidd síðan í apríl árið 2018.    Nú kynni einhver að gera þá athugasemd að Tækniþróunarsjóður synji ekki um styrki án undanfarandi mats og rökstuðnings.  Sú er þó raunin.  Hérlendis er engin þekking á sjávarfallaorku; enginn bær aðili til að meta umsóknir á því sviði.  Engu að síður göslast Tækniþróunarsjóður áfram og fær til matsins einhvern sem ekki veldur því; í stað þess að senda það erlendis til mats eins og rétt hefði verið. 
Afleiðingin er sú að verkefninu er synjað; annaðhvort vegna misskilnings og þekkingarleysis matsmanns eða á grundvelli atriða sem engu máli skipta.  Þannig var vorumsókn Valorku synjað á þeim grunni að „markaður væri ekki tryggður“, þó jafnvel grunnskólakrakki viti að mikil eftirspur ern eftir tækni til umhverfisvænnar nýtingar nýrra orkuauðlinda.  Sama umsókn var lögð inn um haustið, en nú var synjað vegna allt annars fyrirsláttar; vegna þess að markaður sé svo lítill.  Sem eru ennþá fráleitari rök, af sömu ástæðu.  Auðséð er að með þessum synjunum ætlaði ríkisstjórnin og stofnanir hennar að ganga milli bols og höfuðs á Valorku.   En ennþá hefur þeim ekki orðið kápan úr því klæðinu:  Valorka er lífseigari en svo; þróunin hefur aldrei verið blómlegri en nú, en hinsvegar dregur þetta úr líkunum á því að verkefnið nýtist þjóðinni í sama mæli og lagt hefur verið upp með.  Þannig vinna stjórnvöld beinlínis gegn þjóðarhagsmunum.  Enn verður sótt um styrk til TÞS; enda er sjóðnum skylt að styrkja verkefnið samkvæmt Parísarsamkomulaginu.

Stjórnvöld reka verkefnið úr húsi.  Til að auka enn á vanda Valorku hafa stjórnvöld séð til þess að Valorku hefur einnig verið sagt upp aðstöðu sinni, um leið og öllum fjárstuðningi er kippt í burtu.  Frá verklegri byrjun verkefnisins árið 2008 hefur Valorka haft aðstöðu í „frumkvöðlasetrinu Eldey“ á Ásbrú.  Þegar Bandaríkjaher fór af landinu gaf hann íslensku þjóðinni allar húseignir sínar í varnarstöðinni, utan flugvallargirðingar.  Stuttu síðar dundi bankahrunið á þjóðinni.  Mikil gróska hljóp í nýsköpun og litið var á hana; réttilega, sem leið útúr vandanum.  Stjórnvöld ákváðu að í einu húsa hersins skyldi verða frumkvöðlasetur, þar sem nýsköpunarverkefni fengju inni gegn hóflegri leigu.  Valorka er eitt fjölmargra sem þar hefur síðan starfað.  Stjórnvöld hafa síðan unnið að því að selja allar húseignir hersins, og væri líklega margt rannsóknar vert í því baktjaldamakki.  Stjórnvöld hafa nú svikið öll sín fyrirheit um frumkvöðlasetrið Eldey, og á síðasta ári var það „selt“ einhverjum andlitslausum einkaaðila.    Hans fyrsta verk var að reka alla frumkvöðla á dyr, í þeim tilgangi að græða meira á leigubraski.  Vegna þessara svika stjórnvalds er Valorka á götunni frá og með næsta vori.  Enn er óráðið hvar verða höfuðstöðvar þessa eina þróunarverkefnis Íslendinga í sjávarorkunýtingu.  Til að fyrirbyggja allan misskilning er rétt að taka það fram að aldrei hafa orðið vanskil með leigu Valorku, né önnur misklíð verið við leigusala.

Stjórnvöld svíkja fyrirheit um loftslagssjóð.  Árið 2018 lagði ríkisstjórnin fram svonefnda „aðgerðaáætlun í loftslagsmálum“, og gumar mjög af henni.  Í því plaggi er þó fátt að finna af raunhæfum aðgerðum til stuðnings Parísarmarkmiðunum.  Stór fyrirheit höfðu verið höfð uppi um loftslagssjóð til stuðnings nýsköpun á þessu sviði.  Hann er þó ekkert nema nafnið, því einungis eru settar í hann 50 milljónir á þessu ári; eða sem svarar hálfum húskofa, sem bersýnislega er gagnslaust til þeirra verka sem vinna þarf.  Fyrir þessar fimmtíu milljónir á að rafbílavæða landið og byggja alla innviði til þess; moka ofan í alla skurði á landinu; koma öllum mengandi útblæstri gufuaflsvirkjana niður í jörðu; skapa aðstöðu til landtengingar skipa og annarra verkefna; misgáfulegra, sem upp eru talin í aðgerðaáætluninni.  Ekki er minnst á nýtingu hinna gríðarmiklu sjávarorkuauðlinda við landið eða að ljúka þróun til þeirrar nýtingar, sem væri þó árangursríkasta og fljótvirkasta aðgerðin sem stjórnvöld gætu lagt í.  Þar ríkja fordómarnir einir af hendi stjórnvalda.

Svikin fyrirheit stjórnarsáttmálans varðandi þjóðarsjóð.  Í samstarfssáttmála sitjandi ríkisstjórnar stendur skýrum stöfum: „ Þjóðarsjóður verður stofnaður utan um arð af auðlindum landsins og byrjað á orkuauðlindinni. Hlutverk sjóðsins verður að byggja upp viðnám til að mæta fjárhagslegum áföllum. Afmarkaður hluti ráðstöfunarfjár sjóðsins verður notaður til að efla nýsköpun og styðja við vöxt og þroska sprotafyrirtækja“.  Í fyrirliggjandi frumvarpi ríkisstjórnarinnar um þjóðarsjóð er nýsköpun ekki nefnd á nafn; hann má einungis nýta til að mæta „efnahagslegum áföllum“ en auk þess er þar opnað fyrir fjármálabrask.  Hér er því um grímulaus svik stjórnarsáttmálans að ræða.

Hugvitsmenn eru sniðgengnir við mótun nýsköpunarstefnu.  Ríkisstjórnin brýtur fleiri fyrirheit sem þjóðinni voru gefin í stjórnarsáttmálanum.  Þar stendur:  „Nýsköpun og hvers konar hagnýting hugvits er mikilvæg forsenda fjölbreytts atvinnulífs, sterkrar samkeppnisstöðu, hagvaxtar og velferðar þjóða, ekki síst í ljósi þeirra þjóðfélagsbreytinga sem vænta má í atvinnu- og menntamálum vegna örra tæknibreytinga. Hluti fyrirhugaðs Þjóðarsjóðs mun renna til verkefna á þessu sviði.  Mótuð verður heildstæð nýsköpunarstefna fyrir Ísland í samstarfi við fulltrúa stjórnmálaflokka og í nánu samráði við atvinnulífið og vísindasamfélagið“.  Nú skyldu menn ætla að ráðuneyti nýsköpunar leitaði til einu hagsmunasamtaka hugvitsfólks; SFH og KVENN, þegar skipað væri í starfshóp um þessa stefnumótun.  Þau voru hinsvegar algerlega sniðgengin, þrátt fyrir fyrirliggjandi skrifleg loforð ráðuneytisins um hið gagnstæða.  Þetta sýnir, betur en margt annað, hve stjórnvöldum er mikið í mun að tryggja vel völdum hagsmunahópum áframhaldandi aðgang að ketkötlum fjárveitinga til nýsköpunar, þó það kosti svik á öllum fagurgala og fyrirheitum um stuðning við hugvit.

Forsætisráðherra hundsar beiðni um viðtal.  Valorka hefur af alefli reynt að nálgast stjórnvöld til að inna skýringa á framangreindum frávikum og annarri afstöðu þeirra til frumkvöðlavinnu Valorku í þjóðarþágu.  Fundir með ráðherra nýsköpunar- og orkumála hafa engu skilað.  Þar fást engin svör í beinum viðtölum.  Þó þangað séu send skrifleg erindi er þeim ekki svarað nema eftir þvingunarúrræði umboðsmanns Alþingis.  Þegar erindunum er loks svarað eru þau full af rangfærslum og undanfærslum, og þau litlu fyrirheit sem í þeim er að finna eru jafnharðan svikin.  Valorka hefur oftsinnis leitað til forsætisráðherra, en frá byrjun verkefnisins árið 2008 hefur ekkert slíkt viðtal fengist.  Hinn 12.oktober fór verkefnisstjóri fram á viðtal við núverandi forsætisráðherra; Katrínu Jakobsdóttur, í ljósi alvarlegrar stöðu verkefnisins og til að afla skýringa á þeim frávikum sem hér hefur verið lýst.  Enn hefur enginn kostur verið gefinn á viðtali og engar skýringar fengist á því.  Hinsvegar kom forsætisráðherra fram um áramótin og sagði þá í ávarpi sínu:  „Við eigum að leggja rækt við umhverfi þekkingarleitarinnar, halda áfram að byggja upp menntun og rannsóknir, við eigum að taka völdin í tæknibyltingunni og styrkja innviði þannig að fólk geti skapað sín eigin tækifæri á ólíkum sviðum. Stjórnvöld munu áfram leggja sérstaka áherslu á menntun, rannsóknir og nýsköpun, meðal annars með nýjum Þjóðarsjóði. …tæknibreytingar í öllum geirum samfélagsins þarf að nýta til að draga úr áhrifum loftslagsbreytinga. …við eigum að taka völdin í tæknibyltingunni og styrkja innviði þannig að fólk geti skapað sín eigin tækifæri á ólíkum sviðum“. 
Hér vantar hvorki stór fyrirheit né glæsta framtíðarsýn.  Hinsvegar bendir framanskrifuð afrekaskrá ekki til þess að nokkuð innihald sé í þessum orðum.  Hér virðist því um sama innihaldslausa fagurgalann að ræða og hjá öðrum framámönnum þjóðarinnar:  Eitt er sagt en annað framkvæmt. 

Valorka mun ganga hart eftir efndum og skýringum, bæði hjá forsætisráðherra og öðrum ráðamönnum, og hvetur alla til að gera það.