Nokkuð er liðið síðan gerð var grein fyrir stöðu verkefna Valorku hér á vefnum, og verður hér litið yfir hana í stórum dráttum.  Rétt og skylt er að greina frá framgangi þessa eina íslenska þróunarverkefnis í sjávarorkutækni; annarsvegar vegna þess að það hefur þegið styrki af almannafé, en ekki síður vegna hins mikla áhuga sem fjöldi manns hefur sýnt.
 
Tækniþróunin sjálf hefur haldið áfram með þeim hraða sem við er að búast, en hann ræðst alfarið af fjárstuðningi samkeppnissjóða sem síðar verður vikið að.  Þróunin á síðustu mánuðum hefur alfarið beinst að tveggja ása hverflum.  Einása hverflar Valorku höfðu verið prófaðir í sjö mismunandi tegundum.  Þeir standa allir fyrir sínu sem vænleg leið til nýtingar hægstrauma og einn þeirra varð fyrstur íslenskra hverfla til að hljóta einkaleyfi ásamt því að hljóta alþjóðleg gullverðlaun.  Eitt atriði veldur því þó að einása hverflar eru líklega ekki hin endanlega lausn til virkjunar hinna hægu strauma sem Valorka vill ná tökum á.  Þessi orka er mjög dreifð, sem þýðir að hverflar þurfa bæði að vera stórir og hagkvæmir í framleiðslu.  Hinsvegar er sjávardýpi yfirleitt fremur lítið þar sem annesjarastir verða hraðastar, og er t.d. tíðum kringum 20 metra hér við land.  Hverfill þarf að vera neðan mestu ölduhreyfingar en ofan kyrrðarinnar við botninn, og því er einása hverfill ekki hentugur. 
Lausn á þessu felst í því að hafa stærð hverfilsins sem mest í láréttum fleti.  Það þýðir að ásarnir þurfa að vera a.m.k. tveir og blöðin ganga milli þeirra.  Með öðrum orðum minnir hverfillinn allmikið á færiband.  Þessi lausn hefur lengi verið til athugunar hjá Valorku en nýlegar uppfinningar gera hana mjög vænlega.  Með sérstökum búnaði er mögulegt að losna við öll burðarvirki milli meginásanna, auk þess sem komin er lausn sem gefur færi á mjög einföldum umbúnaði blaða og banda með opnunaraðferð sem sumpart byggir á þróun einása hverflanna.  Þessar lausnir gera það annarsvegar mögulegt að dreifa álagi hverfilsins eins og best verður á kosið og hafa hann úr léttum og ódýrum efnum, en hinsvegar gera þær kleyft að hafa hverfilinn nær óendanlega langan.
 
Líklegt er að í fullri stærð verði hverfill Valorku langsamlega stærsti hverfill heims.  Sá stærsti núna er líklega vindhverfill Vestas-Mitsubishi sem hafin er framleiðsla á, en hann er 164 m í þvermál.  Hverfill Valorku mun nær örugglega verða yfir 200 metrar á lengd; en líklega verður um 500 lengdarmetrar hagstæð eining á hverjum hverfli.  Líkanið sem nú er verið að smíða er 25 metra langt og verður eingöngu notað til átaksprófana en ekki orkuframleiðslu.  Hverfillinn verður sérstæður um fleira; í honum verða líklega flest blöð allra hverfla; hann verður eðlisléttari en nokkur annar hverfill og framleiðslukostnaður hans verður langtum minni miðað við stærð en nokkurrar annarrar virkjunar.  
Allt hnígur þetta að sömu meginmarkmiðum sem Valorka vinnur að, og eru nauðsynleg ef takast á að virkja annesjastrauma með hagkvæmum hætti.  Orkan er mjög dreifð og því þurfa hverflarnir að vera gríðarstórir, en um leið léttir og hagkvæmir.  Vegna einkaleyfahagsmuna er ekki unnt að segja mikið meira um hverfilinn á þessum tíma; honum verður lýst síðar.
 
Með framtaki sínu leitast Valorka við að finna tækni sem auðveldar ríkjum heims að vinna að markmiðum Parísarsáttmálans um minni losun gróðurhúsalofttegunda á hnattræna vísu, en um leið að opna möguleika á nýtingu nýrra hreinna og endurnýjanlegra orkulinda.  Því skyldu menn ætla að stjórnvöld styddu verkefnið með öllum tiltækum ráðum og greiddu götu þess, a.m.k. Að því marki sem unnt er í samkeppnisumhverfi.  En það er öðru nær, eins og lesa má í fyrri fréttum hér á vefnum.  Verkefninu hefur að mestu verið mætt með einstökum fordómum og skilningsleysi að hálfu stjórnvalda, og eru þar fremstar í flokki stofnunir og ráðuneyti sem vinna á viðkomandi sviðum. 
Nokkru af því er lýst í grein sem birtist í Morgunblaðinu um þessar mundir og sjá má undir þessum hlekk: Sjávarorkutækni; tækifæri og fordómar.