Á þessu sumri hafa í fyrsta sinn farið fram prófanir einstrengs-hverfils til nýtingar hægstraums. Ekki er vitað til að sú hverfiltegund hafi áður komið fram á heimsvísu; né önnur í líkingu við hana. Hverfillinn hefur verið prófaður sem líkan í nokkrum útgáfum, í ám og lækjum víðsvegar um Suðurland. Síðsumars hafa Valdimar og Hjördís unnið að prófunum í Brúará, í landi Leynis hjá Böðmóðsstöðum. Þar var komið fyrir flotbryggju út í ána og hverfillinn prófaður í sérhönnuðu mastri þar sem mælt er átak, snúningshraði og straumhraði, en út frá þeim gildum geta verkfræðingar reiknað frammistöðu hverfilsins.
Í stuttu máli sagt hefur herfillinn farið fram úr björtustu vonum; bæði varðandi afköst og eiginleika. Blöð opnuðust eins og til var ætlast; hverfillinn snerist greiðlega þrátt fyrir straumiður í vatninu, og fremri blöð virtust ekki trufla hin aftari, væri millibil nægjanlegt. Upphafleg hönnun gerði ráð fyrir að tvö endahjól væru nauðsynleg, jafnvel þó straumur lægi í eina átt. Í ljós kom að hverfillinn getur sem best unnið með aðeins einu endahjóli í einstefnustraumi. Þetta þýðir að nýta má hverfilinn í þeirri gerð sem rennslisvirkjun í ám án stíflugerðar; eða til að virkja stærsta foss heims sem er neðansjávar í íslenskri lögsögu á Grænlandssundi. Tvö endahjól þarf til virkjunar í fallaskiptum straumi.
Hverfillinn byggir á fyrri hverflaþróun Valorku; fyrst röð einása hverfla og síðan tvístrengja hverfils. Hann er þó miklu einfaldari, léttari og þægilegri í meðförum en fyrri hverflar. Þess má geta að hverfillíkan með 8 blöðum, sem hvert gefur um 80 kg átak í 0.8 m/sek straumi, vegur aðeins rúmt kíló að frátöldum endahjólum. Ýmislegt í hverflinum gæti reynst einkaleyfishæft og því verður honum ekki lýst nánar hér.
Það sem af er þessu ári hefur þróunin notið styrkja frá Uppbyggingarsjóði Suðurlands og frá Lóu; nýsköpunarsjóði landsbyggðarinnar. Við framhaldið er vænst stuðnings Orku- og loftslagssjóðs og Tækniþróunarsjóðs. Gert er ráð fyrir frekari prófunum í Brúará, en einnig verður hafinn undirbúningur að prófun stærra líkans í sjávarföllum.
Samtöl forráðamanna Valorku við þingmenn og orkumálaráðherra hafa leitt í ljós vaxandi áhuga á sjávarfallaorku. Í framhaldi af þeim er þess vænst að stjórnvöld hefjist handa án frekari tafa. Stefnumótun í málefnum sjávarfallaorku þarf að verða óaðskiljanlegur hluti af orkustefnu landsins, og hefja þarf rannsóknir á sjávarfallaorku í samræmi við fyrirliggjandi þingsályktun frá 2014. Einnig þarf að tryggja betur en nú er gert að íslenskt frumkvæði í tækniþróun á þessu sviði nýtist til innlendrar verðmætasköpunar og orkuvinnslu. Að öðrum kosti munu Íslendingar missa af því tækifæri sem frumkvæði Valorku hefur fært þjóðinni. Með viðvarandi sofandahætti stjórnvalda munum við dragast aftur úr öðrum þjóðum í þróun og missa af tækifærum. Framtíðin er björt, en því aðeins að tækifærin séu nýtt.