Út er komin skýrsla Valorku; "Sjávarorka 2025 - staða tækniþróunar og nýtingar".  Valorka ehf er ekki einungis eina fyrirtækið sem hérlendis þróar tækni til sjávarorkunotkunar, heldur einnig eini aðilinn sem stundar gagnasöfnun á því sviði; veitir fræðslu til almennings og skóla; heldur uppi kynningum í fjölmiðlum og tekur saman skýrslur.  Fjölmargar skýrslur hafa verið ritaðar á undanförnum árum og sendar stjórnvöldum, þar sem vakin er athygli á þessari miklu orkuauðlind Íslendinga; gerð grein fyrir þróun og stöðu erlendis og greint frá tækifærum sem liggja í tækniþróun og orkunýtingu hérlendis.  Líklega hafa flestar þær skýrslur lent í skúffum og pappírstæturum í stjórnkerfinu, ef marka má aðgerðaleysið til þessa.  

Undantekning var skýrsla Valorku sem alþingismenn fengu í hendur árið 2011.  Hún leiddi til þess að nokkrir framtakssamir þingmenn, í samráði við skýrsluhöfund, öfluðu samstöðu allra stjórnmálaflokka og lögðu fram þingsályktunartillögu um "rannsóknir á umfangi og nýtingarmöguleikum sjávarfallaorku".  Þingsályktunin var samþykkt samhljóða vorið 2014.  Með henni, og sérfræðiskýrslu sem fylgdi í kjölfarið, var samþykkt að hefja rannsóknir á sjávarfallaorku og stuðla að nýtingu hennar.  Hins vegar hefur enn ekkert orðið af framkvæmdum; enn bíða þessar stærstu orkulindir þjóðarinnar rannsóknar meðan stórir hagsmunaaðilar "ganga  um eins og grenjandi ljón" og reyna að telja þjóðinni trú um að einu möguleikar til frekari orkuöflunar séu umhverfisspillandi vatnsaflsvirkjanir og vindmyllur á hverjum fjallstoppi.  

Þjóðin veit þó betur, eins og kom fram í könnun Maskinu árið 2022.  Þar sögðust um 71% vilja að aukning orkuframleiðslu kæmi frá sjávarfallavirkjunum; mun færri vildu sjá vatnsaflsvirkjanir og aðeins 59% vildu vindmyllur.  

Aftur að skýrslu Valorku.  Þar er fjallað um það helsta sem við kemur stöðu sjávarorkunýtingar.  M.a. þá tækni sem lengst er komin í þróun, en víða er byrjað að framleiða orku inn á neyslunet þó enginn hverfill sé kominn í fjöldaframleiðslu.  Lengst er komin tækni til orkuvinnslu úr hröðum straumum, eins og t.d. má finna við Skotland.  Í hröðum straumi gagnast skrúfuhverflar, líkir vindmyllum, en þeir eru gagnslausir í hægari straumi eins og t.d. er aðlegngur í röstum hér við land.  Þar er komin lengst sú íslenska tækni sem Valorka ehf þróar.  Við höfum því ekki einungis mikil tækifæri til nýtingar sjávarfallaorku, heldur einnig til þess að verða í forystu á þessu tæknisviði.  En það forskot gengur okkur úr greipum ef þróuninni er einatt synjað um stuðning, eins og verið hefur.  Þarna er einnig í fyrsta skipti fjallað um stærsta einstaka orkuöflunarkostinn í íslenskri lögsögu; "Blakkfoss" hinn mikla í Grænlandssundi, sem er stærsti og orkuríkasti foss heims.  

Skýrslan hefur verið send stjórnvöldum, líkt og fyrri skýrslur Valorku; og einnig fjölmiðlum.  Það er hlutverk almennings og fjölmiðla að halda stjórnvöldum við efnið og þrýsta á um aðgerðir.  Stjórnvöldum ber að vinna að hagsmunum almennings og móta skynsamlega stefnu sem tryggir orkuöryggi komandi kynslóða án þess að gengið sé á náttúrugæði.  Fjölmiðlar bera einnig ríka ábyrgð í þessu efni.

Skýrsluna má sjá hér, og henni má dreifa að vild: