Verkefni Valorku; einu þróunarverkefni Íslendinga á sviði sjávarorkutækni, hafa verið í biðstöðu frá haustinu 2013.  Ástæða þess er ekki sú að verkefnin hafi ekki staðið undir væntingum; þvert á móti hafa þau skilað árangri langt umfram björtustu vonir.  Þessa stöðu má alfarið rekja til þess áhugaleysis, tómlætis, og jafnvel fordóma, sem stjórnvöld hafa gagngert og meðvitað sýnt verkefninu.

Þegar verkefnisstjóri hóf vinnu að verkefninu hafði hann verið atvinnulaus eins og fleiri; enda í miðju mesta efnahagshruni sem yfir þjóðina hefur dunið.  Þá var ákveðið að láta reyna á hugmyndir sem þróast höfðu um langan tíma, varðandi virkjun hinna orkuríku hafstrauma við annes.  Eftirspurn á heimsvísu eftir grænni orku var ört vaxandi, en um leið var þróun á þessu sviði komin stutt á veg.  Gagnleg tæknilausn gæti því reynst mjög verðmæt; ekki aðeins fyrir hugvitsmanninn, heldur ekki síður íslenska þjóð.  Eftir algjört skilningsleysi í byrjun, hrökk stuðningsumhverfið í gang.  Tækniþróunarsjóður veitti frumherjastyrk og síðan þriggja ára verkefnastyrk; Orkusjóður hóf að styrkja verkefnið og smærri aðilar sýndu skilning og stuðning.  Fyrstu tegundir hverfilsins reyndust hafa algert nýnæmi og einkaleyfi vegna þeirra varð um leið fyrsta einkaleyfi á íslenskum hverfli.  Þróun var haldið áfram, með öflugu teymi sérfræðinga; fleiri tegundir þróuðust og voru prófaðar í straumkeri með góðum árangri.  Hverfillinn hlaut ýmsar viðurkenningar erlendis; t.d. gullverðlaun International Inventors Awards árið 2011 og gullverðlaun á stærstu uppfinningasýningu vestanhafs 2014.  

Sumarið 2013 hófst næsta stig þróunar; sjóprófanir stærri hverfla.  Til þeirra var valið sund í Hornafirði, þar sem aðstæður eru ákjósanlegar.  Hönnuð var og smíðuð, fyrsta og eina prófunarstöð hverfla á landinu; stór fleki með vönduðum mælibúnaði.  Neðan í hann var hverfillinn festur, þannig að unnt væri að hífa hann úr sjó til skoðunar, og flekanum lagt við stjóra á sundinu með góðri aðstoð hafnarstarfsmanna.  Einungis náðist að prófa tilraunastöðina sjálfa og undirbúa prófanir hverfilsins fyrir haustið 2013.  Reyndar var það merkur áfangi:  Ekki einungis fyrir það að þá hófust í fyrsta skipti tilraunir hérlendis til orkufarmleiðslu úr sjó, heldur ekki síður fyrir það að þá var í fyrsta skipti í heiminum prófaður hverfill sem ætlað er að vinna orku úr sjávarföllum utan straumhörðustu sunda.  

Á sama tíma rann út verkefnisstyrkur Tækniþróunarsjóðs, sem var meginundirstaða fjármögnunar verkefnisins.  Sótt var um framhaldsstyrk en honum var synjað án skynsamlegra skýringa.  TÞS gerði kröfu um söluáætlun til 20 ára, en hvert mannsbarn veit að ekki er unnt að áætla sölu á tæki sem ekki er búið að þróa; þaðan af síður ef markaður og markaðsverð hefur ekki enn náð að þróast.  Hér var því kominn upp sá galli í stuðningsumhverfinu að það getur ekki styrkt þróunarverkefni nema þau snúi að þekktri tækni og markaður sé þegar myndaður.  Þessi galli mun um aldur og ævi útiloka Íslendinga frá allri langtíma tækniþróun, eins og hér um ræðir; verði hann ekki lagfærður.  Verkefnið var því komið í frost.  Aftur var sótt um, vorið 2014; nú með 20 ára áætlun, byggðri á áætluðum forsendum.  TÞS hafnaði núna á þeim forsendum að rökstuðning vantaði, auk þess sem nú var gerð krafa um aðkomu "öflugs aðila".  Spurt var um skýringar og benti TÞS á t.d. Nýsköpunarmiðstöð Íslands.  Þó sú krafa væri fyllilega órökstudd var þetta látið eftir; og gerður samstarfssamningur við Nýsköpunarmiðstöð.  Enn var sótt um haustið 2014, og án langtímaáætlunar; enn hafnaði TÞS og heimtaði þá áætlun.  Sótt hefur verið um í fjórða skiptið og nú fékk NMÍ nær frjálsar hendur um að gera 20 ára áætlun með sínum aðferðum.  Er nú beðið niðurstöðu TÞS, sem vænta má í mai eða júní nk.  

Vegna þessarar tregðu helsta stuðningsaðila verkefnisins, hefur það verið í stöðvun í þrjú misseri.  Orkusjóður hefur að vísu hingað til reynst viljugur til stuðnings, en honum er haldið í fjársvelti af stjórnvöldum.  Þrátt fyrir tuga milljarða tekjur þjóðarinnar af orkusölu ár hvert, fær Orkusjóður einungis 30 milljónir til allrar orkuþróunar í landinu!  Jafnvel þó Valorka fái allt að tíunda hluta þess fjár þá dugir það ekki eitt sér til að þoka verkefninu áfram.   Sá styrkur hefur dugað til að halda aðstöðu og tækjum, en verkefnisstjóri hefur þurft að lifa á örorkubótum konu sinnar.  Þannig er háttað stuðningi við íslenska hugvitsmenn sem hlýða kalli stjórnvalda um framlag til atvinnu- og verðmætasköpunar!

Ríkisstjórn Íslands var spurð álits á því hvort leggja ætti niður þessi einstöku verkefni, á sama tíma og þau hefðu skilað einstökum árangri og skapað Íslandi einstaka stöðu til forystu á nýju sviði orkutækni.  Spurt var hvort Valorka ætti t.d. rétt á stuðningi af þeim hundruðum milljóna sem ráðstafað hefur verið sl 3 ár til "græna hagkerfisins". Ríkisstjórnin synjaði alfarið um stuðning af þeim lið, enda hefur hann að mestu leyti farið í menningarmál og fornleifavernd.  Hinsvegar fékk Valorka yfirlýsingu ríkisstjórnar, undirritaða af forsætisráðherra, þar sem þakkað er fyrir hið einstaka frumherjaverkefni Valorku og lýst von ríkisstjórnar um að verkefnin "muni skila þeim árangri sem að er stefnt"!  Valorka hefur gert ítrekaðar tilraunir til að spyrja hin ýmsu viðkomandi ráðuneyti eftir skýringum á þessum orðum; hvernig ríkisstjórnin hyggist tryggja það að verkefnin geti þróast áfram; en engin svör fást frá ráðuneytum.  Þau virðast ekki þurfa að svara erindum sem til þeirra er beint.  Valorka fór fram á beint framlag ríkisstjórnar til að verkefnin gætu lifað framá þann tíma að styrkur TÞS væri í höfn, en var ekki virt svars.

Valorka leitaði eftir því við Landsvirkjun að hún gerðist fjárhagslegur bakhjarl verkefnanna.  Slíkur stuðningur væri fullkomlega rökréttur og eðlilegur, þar sem Landsvirkjun tekur inn nánast allar tekjur af sölu orkuauðlinda þjóðarinnar; ekkert væri sjálfsagðara en að stutt væri við samfélagsverkefni í orkuþróun af þessu tagi af því fé.  Þessu hafnaði Landsvirkjun með þeim "rökum" að stuðningur við tækniþróun samrýmdist ekki megintilgangi fyrirtækisins.  Þetta eru falsrök, sem sést best á því að Landsvirkjun ver miklum fjárhæðum í sína eigin tækniþróun, t.d. varðandi innleiðingu vindmyllutækni.  Auk þess er hikaði Landsvirkjun ekki við að leggja fé í Sjávarorku í Stykkishólmi, í samstarfi við Rarik og fleiri.  Þetta svar Landssvirkjunar byggir því á alfarið á fordómum og meinbægni í garð Valorku.  Ámælisvert er að forstjórar Landsvirkjunar fái þannig sjálfdæmi um ráðstöfun arðs af sameiginlegum orkuauðlindum þjóðarinnar.

Verkefni Valorku hafa þá sérstöðu að hverflaþróun er í eðli sínu langtímaverkefni; ekkert sambærilegt verkefni hefur verið unnið hérlendis.  Fjárþörf slíkrar þróunar vex verulega þegar framí sækir; og ekki er unnt að ætla íslenskum samkeppnissjóðum að halda því uppi til enda.  Til að tryggja íslenska hagsmuni ætlast Valorka til þess að íslenskir samkeppnissjóðir styðji verkefnið framá það stig sem nú er hafið; að sjóprófanir verði kláraðar; einkaleyfi verði tekin á þeirri gerð sem best reynist og að staðfesting sérfræðinga liggi fyrir ("proof of concept").  Það þrep ætti á nást á næstu 2-3 árum ef verkefnið kemst aftur af stað.  Eftir það er verkefnið boðlegt alþjóðlegum stórum fjárfestum sem bera það uppi til markaðar.  Slíka fjárfesta skortir ekki; einn slíkur hefur þegar rætt við Valorku með aðkomu í huga, og er tilbúinn að halda þeim viðræðum áfram þegar fyrrnefnd atriði eru í höfn.  Hvarvetna í heiminum (nema e.t.v. á Íslandi) er litið til sjávarorku sem vænlegs fjárfestingarkosts til framtíðar.

Í lokin skal hér gerð grein fyrir því fé sem Valorka hefur þegið frá samkeppnissjóðum til þessa, til þróunar síns verkefnis.  Á rúmlega sex árum hefur Valorka fengið alls 37,8 milljónir úr íslenskum samkeppnissjóðum til sinna verkefna, og vega þar þyngst styrkir Tækniþróunarsjóðs.  Þessir styrkir hafa að mestu leyti gengið til ríkissjóðs aftur í formi skatta og húsaleigu, en eftir standa nokkur mælitæki, frumgerðir og prófunarstöð hverfla, auk mesta ávinningsins sem er möguleiki til mikillar verðmætasköpunar.  Þessa upphæð má svo bera saman við það að hverfill í þróun erlendis hefur fengið yfir 20 milljarða í þróunarfé, en er enn ekki kominn í sjóprófanir.  

Í tíð þeirrar ríkisstjórnar sem nú situr; þeirrar sem gefið hefur yfirlýsingar um mikilvægi og nauðsyn verkefnisins; hefur stuðningi við verkefnið nánast verið hætt.  Einungis 3ja milljóna styrkur Orkusjóðs 2014 hefur fengist á þeim tíma. Ríkisstjórnin hefur synjað verkefninu um alla styrki af safnliðum; um stuðning frá græna hagkerfinu og um beint framlag frá ríkisstjórninni, sem þó styrkir ýmis þörf málefni önnur.  Ef stjórnvöld ákveða núna, með aðgerðaleysi sínu og áhugaleysi, að eyðileggja þetta verkefni; munu þau jafnframt bera ábyrgð á því að þetta fé glatast með öllu.  

Örlög þessa íslenska hverfils munu ráðast á næstu dögum og vikum.  Hann hefur þegar markað sín spor í íslenska orkusögu, en það er undir stjórnvöldum komið hvort tækifærin verða nýtt í þágu komandi kynslóða.

Fyrir þá sem vilja kynna sér þá miklu þróun sem nú á sér stað erlendis á sviði sjávarorkutækni, má benda á grein í tímaritinu Renewable Energy World:http://www.renewableenergyworld.com/rea/news/article/2015/04/marine-energy-sector-continues-growing-worldwide-despite-economic-setbacks?cmpid=WNL-Friday-April17-2015 , sem vísar í nýútkomna ársskýrslu sjávarorkudeildar Alþjóða-orkumálastofnunarinnar (IEA-OES) fyrir árið 2014.  Nýr framtíðarmarkaður orkuvinnslu og orkutækni er í mótun.  Verkefni Valorku hafa komið Íslendingum í fremstu röð þróunar.  Ætla stjórnvöld að eyðileggja það tækifæri; svipta framtíðarkynslóðir möguleikum og lítilsvirða íslenskt hugvit?