sigrun umhvradherraÍ útvarpsættinum "Sprengisandur" á Bylgjunni 22.mars 2015, ræddi þáttastjórnandinn, Sigurjón M. Egilsson, við Sigrúnu Magnúsdóttur umhverfisráðherra og Svandísi Svavarsdóttur, fyrrverandi umhverfisráðherra. 

Fram komu merkar yfirlýsingar að hálfu umhverfisráðherra sem ber að fagna og halda til haga:  Ráðherra sagði m.a.

"Ég skil ekki hversvegna við leggjum ekki meira fé í rannsóknir varðandi orkumál og nýja tækni.  Finnst sérkennilegt að við skulum ekki hafa þróað í heiminum almennt nýja tækni til vinnslu á orku, þannig að við getum lagt af gerð virkjunarlóna og annars sem er að skemma landið.  

Ég er spennt fyrir sjávarföllum; að við getum virkjað þá orku sem þar er að hafa, en við höfum kannski ekki ýtt nógu mikið eftir því.  Tiltölulega nýverið erum við farin að nýta vindorkuna og hún skilar meiri árangri en við bjuggumst við.  En vindorkan er ekkert alveg heilög; þar er margt sem við þurfum að skoða frá umhverfislegu sjónarmiði.  Það eru ýmsir möguleikar; ég vil gjarnan skoða fleiri möguleika".  

Sigurjón spurði hvort ráðherra teldi þurfa að verja meira fé til að kanna aðra möguleika, s.s. vindorku og sjávarföll, og ráðherra játaði því skýrt og skilmerkilega.  

Svandís nefndi sjóði sem ætlað hefði verið að styðja rannsóknir og þróun slíkra grænna orkugjafa; Loftslagssjóð og fjárveitingar græna hagkerfisins; spurði hvort ætlunin væri að endurreisa græna hagkerfið?  Sigrún umhverfisráðherra sagðist ekkert endilega vilja endurreisa það undir því nafni.  

Svo mörg voru þau orð.  Yfirlýsingar ráðherra eru vissulega ánægjulegar og þakkarverðar.  Hinsvegar eru þær e.t.v. merkilegastar fyrir þeirra hluta sakir að núverandi ríkisstjórn hefur hingað til ekki staðið við bakið á eina þróunarverkefni Íslendinga í sjávarorku, þrátt fyrir að það hafi skilað einstökum árangri; þrátt fyrir að það hafi komið Íslendingum í fremstu röð tækniþróunar á sínu sviði og þrátt fyrir jákvæðar skriflegar yfirlýsingar þessarar ríkisstjórnar.  Þvert á móti hefur þessu verkefni gengið flest í móti á þessu kjörtímabili, að því er stjórnvöldum við kemur:  Styrkfé hefur verið synjað frá Tækniþróunarsjóði án skýringa; Orkusjóði hefur áfram verið haldið í fjársvelti; Landsvirkjun hefur sýnt verkefninu hroka og synjað um aðstoð á sama tíma og varið er háum upphæðum af almannafé til vindorkuþróunar; iðnaðarráðherra sýnir verkefninu sinnuleysi; umhverfisráðherra synjaði um aðstoð af fjárveitingum til græna hagkerfisins; verkefninu hefur verið varpað fram og aftur milli ráðuneyta án þess að nokkur vilji koma því til aðstoðar og nú síðast keyrði um þverbak.  Þá sótti Valorka um beinan stuðning ríkisstjórnarinnar með tilvísun annarsvegar til fyrri fordæma og hinsvegar til yfirlýsingar ríkisstjórnarinnar sjálfrar um góðan hug og væntingar til verkefnisins. Ríkisstjórnin svaraði þessu erindi ekki skýrt en lét í það skína að engin aðstoð fengist.  Ítrekuð hefur verið beiðni um svör.  Yfirlýsingar ríkisstjórnar má lesa hér á vefsíðunni, en þær hafa hingað til reynst orðin tóm.  Fyrsti íslenski hverfillinn og fyrsta tilraun Íslendinga til nýtingar sjávarfalla er nú að deyja drottni sínum vegna sinnuleysis stjórnvalda.

Það kemur því ánægjulega á óvart að verkefnið skuli nú hafa eignast bandamann í umhverfisráðherra.  Með þessi ummæli ráðherra að veganesti mun Valorka nú þegar óska eftir fundi með ráðherra og inna hana eftir því hvernig megi bjarga verkefninum úr þeirri stöðvun sem þau hafa verið í að undanförnu vegna skorts á stuðningi stjórnvalda.  Einnig munu alþingismenn allir verða spurðir um sín viðhorf í þessu efni og send verða erindi í viðeigandi nefndir þingsins.