Nýlega var farið í stuttan mælingaleiðangur í Ósa, en svo nefnist vogurinn norðan Hafna; vestantil á Reykjanesskaga.  Þarna hagar svo til að um 2ja ferkílómetra vogur gengur til austurs inn af ströndinni, og greinist í fjölmarga litla krika með nesjum á milli.  Ósavogurinn er allur grunnur, en þó einkum yst; norður af Höfnum.  Þar er garður skerja og hleina sem sumar eru alltaf uppúr; aðrar uppúr á fjöru en einnig mikið flágrynni sem aldrei kemur úr sjó.  Um þennan skerjagarð þarf að komast töluverður sjór á hverri flæði, eða líklega 2 til 3 milljónir rúmmetra, fjórum sinnum á sólarhring.  Fyrirfram var því búist við að töluverður straumþungi væri í rennum eða lænum sem eru þarna milli skerjanna.

Farið var af skábrautinni sem herinn skildi eftir sig í Þórshöfn; hinum fornfræga verslunarstað Suðurnesja norðan Ósa.  Slöngubát var þar rennt niður í víkina og siglt stutta vegalengd inn að grynningunum.  Þar var lagst við stjóra; straumhraðamæli Valorku slakað undir yfirborðið og hann tengdur fartölvu.  Mælt var á þremur stöðum í þessari fyrstu atrennu og mælistaðir merktir á kort.  Straumhraði reyndist vera frá um 0,5 m/sek og upp í um 1 m/sek.  Meiri straumur er greinilega sumsstaðar, enda eru víða boðafoll á grunnum flúðum.  Tærleiki sjávar er nokkuð mikill

Ætlunin með þessum mælingum er einkum að skoða hvort þarna gætu verið hentugar aðstæður til prófana á hverflum Valorku.  Staðurinn hefur ýmsa kosti til slíks; t.d. nálægð við vinnustofu Valorku; tærleika sjávar; góða aðstöðu til sjósetningar og fremur litla hættu á árekstrum við aðra starfsemi.  Auk þess virðist skerjagarðurinn vernda vænlega prófunarstaði frá sjógangi.  Hinsvegar eru nokkrir augljósir ókostir, svo sem miklar grynningar; iðuköst vegna botnlags; slæmt aðgengi að innsvæðum landleiðis; skortur á þjónustu og aðstöðu við landið o.fl.  Ekki hefur verið kannað hvort prófanir kynnu að rekast á við aðra hagsmuni, t.d. varðandi æðarvörp, og hver er vilji landeigenda.

Í Ósum er töluverð orka sem eflaust kemur einhverntíma til álita að nýta.  Núna er fyrst og fremst verið að kanna hvernig svæðið hentar til prófana.  Verður þeim könnunum haldið áfram á komandi vori.