(mynd úr vinnustofu)
Valorka ehf hefur nú flutt vinnustofu sína um set, þó innan sama húsnæðisí frumkvöðlasetrinu Eldey að Ásbrú.  Miklar breytingar standa nú yfir í Eldey á vegum Þróunarfélags Keflavíkurflugvallar (Kadeco) sem sér um reksturinn fyrir hönd ríkisins.  Valorku bauðst að fá aðstöðu sem hentaði beturen hin fyrri, og var það þegið.  Nýja aðstaðan er þokkalega rúmgóð, með stórum dyrum og geymslulofti.  Með henni er unnt að koma allri geymslu- og verkstæðisaðstöðu á einn stað, en áður var leigt sérstakt hús fyrir bát.  Eftir sem áður er skrifstofuaðstaða á heimili Valorku og verkstjóra, að Skógarbraut 1104, en þar fer einnig fram hönnunarvinna o.fl.  Frumkvöðlasetur af því tagi sem ÞK býður uppá í Eldey eru mikilvæg úrræði fyrir frumkvöðlaverkefni.  Þar er bæði unnt að fá aðstöðu fyrir verkefni sem ekki þurfa annað en skrifstofuaðstöðu og einnig þau sem þurfa verkstæðisaðstöðu. 

 Tveir gallar eru þó enn óleystir varðandi Eldey, og e.t.v. önnur setur af því tagi.  Annarsvegar væri mikil þörf á sameiginlegum vélasal, þar sem leigjendur gætu komist í vélar til afmarkaðra verkefna.  Þa myndi skapa mikið hagræði í stað þess sem nú er; að hver þurfi að eiga dýrar vélar sem notast lítið.  Þetta myndi þó kosta umsjónarmann með tækjunum, og þann kostnað hefur ÞK ekki viljað leggja í ennþá.  Hitt atriðið er svo það að leiga aðstöðu í Eldey er tiltölulega há, a.m.k. fyrir þau frumkvöðlaverkefni sem eiga erfitt með fjármögnun.  Leiga Valorku núna er 500 kr/m², sem er lítið undir markaðsverði.  Hlýtur að teljast undarlegt að ríkissjóður, sem er bakhjarl ÞK, skuli þannig íþyngja verkefnum sem kunna að reyna þjóðhagslega hagkvæm.  Þær mótbárur hafa heyrst að leiga þurfi að vera nokkuð há til að „losna við starfsemi sem ekki getur flokkast undir frumkvöðlastarfsemi“.  Spyrja má á móti hvort ekki sé skynsamlegra að vera með gott og stöðugt mat og eftirlit að hálfu rekstraraðila.