08.12.2010

brimNú er ljóst að fjárveitinganefnd Alþingis hefur ekki orðið við umsókn Valorku ehf fyrir hönd Rannóknamiðstöðvar sjávarorku um framlag til sjávarorkurannsókna árið 2011.  Afgreiðsla nefndarinnar verður að teljast mistök og ber hvorki vott um mikla framsýni né athugun að hálfu þeirra sem um hafa fjallað.  Eins og skýrt var tekið fram í umsókn var þessi fjárveiting einkum ætluð sem uppbót á þá fjárveitingu sem RMS fékk á fjárlögum ársins 2010, en hún dugði ekki til kaupa á einum mæli til straumarannsókna.  Er því lítið samhengi í veitingum að hálfu fjárlaganefndar og þarf augljóslega að bæta hér vinnubrögð.  Kom fyrir ekki þó verkefnisstjóri fengi fund með fjárveitinganefnd og skýrði tilganginn; jákvæðar undirtektir nefndarmanna skiluðu sér ekki við afgreiðslu fjárlaga.

Þessi afgreiðsla verður þó sínu furðulegri ef skoðaðar eru aðrar fjárveitingar af svipaðri stærðargráðu í fjárlögunum.  Þar úir og grúir af fyrirgreiðslum og poti til hinna ótrúlegustu verkefna sem ekki geta talist hafa jafn mikla þjóðhagslega þýðingu og rannsóknir á stærstu orkulind þjóðarinnar.  Draugar, tröll og landnámshænsni eiga vissulega stað í þjóðarsálinni, en er þörf á fjárveitingu til þeirra jafn mikil og að hefja rannsóknir á stærstu orkulind þjóðarinnar á hagkvæman hátt; í þágu allra komandi kynslóða?  Spyr sá er ekki veit.