vidskiptiNú er komið á daginn að Vinnumálastofnun mun svipta alla atvinnuleysingja bótum sem vinna að nýsköpun.  Þetta fékkst staðfest í dag með bréfi Vmst til verkefnsisstjóra Valorku ehf.  Forsaga málsins er þessi í stuttu máli:  Eftir að VÖ missti vinnu sína haustið 2008 hóf hann vinnu við þróunarverkefni það sem leitt hefur til Valorka hverflanna.  Við efnahagshrunið mikla haustið 2008 hvöttu stjórnvöld atvinnuleysingja mjög til þess að leggja sitt að mörkum til nýsköpunar, enda væri það vænlegasta leiðin til enduruppbyggingar efnahags og atvinnu.  Þáverandi félagsmálaráðherra, Jóhanna Sigurðardóttir, setti reglugerð nr. 12/2009, en í henni var m.a. ætlunin að ná þessu fram á tvennan hátt.  Annarsvegar er í grein 7 heimild til atvinnulausra að gera samning við Vmst um að geta unnið að nýsköpunarverkefni án þess að vera í atvinnuleit en vera samt á bótum.  Samningur þessi er til 6 mánaða en framlengjanlegur í aðra 6.  Hinsvegar er í 8. grein heimild til fyrirtækja sem vinna að nýsköpun að ráða atvinnuleysingja og fá bætur þeirra í meðgjöf.  VÖ sótti strax um samning skv 7. gr og fékk hann ásamt framlengingu; samtals 12 mánuði. Þar sem þróunartími nýsköpunar af þessu tagi er mörg ár, var sótt um heimild til handa Valorku ehf að ráða VÖ í vinnu skv 8.gr eins og hún heimilar, enda lá fyrir vottun Nýsköpunarmiðstöðvar varðandi nýsköpunargildi verkefnisins.  Vinnumálastofnun synjaði um samning á þeirri forsendu að þar sem verkefnið hefði áður fengið samning skv 7.gr þá væri það ekki lengur „nýtt“!  Þessari furðulegu túlkun Vmst var harðlega mótmælt, enda styðst hún hvorki við almenna skynsemi né nokkurn laga- eða reglugerðarbókstaf. 

En Vinnumálastofnun gerði það ekki endasleppt í löglausum yfirgangi sínum og ofstopa gegn nýsköpun og framförum.  Með tilvísun til þess að verkefnisstjóri Valorku hafði samviskusamlega tilkynnt í mánaðarlegri skráningu að hann væri að vinna að nýsköpunarverkefni og því ekki í atvinnuleit,  þá var hann nú sviptur atvinnuleysisbótum.  Þar með var komin upp sú staða að VÖ var núna án atvinnuleysisbóta beinlínis vegna þess að hann hafði hafið vinnu að nýsköpun.  Hefði hann þess í stað legið aðgerðalaus með tær uppí loft, hefði hann áfram átt rétt á bótum í fjölmarga mánuði, enda enga vinnu að hafa.  Staðan var því sú að ætlun stjórnvalda hafði þarna snúist upp í andhverfu sína;  nýsköpun var nú orðinn banabiti atvinnulausra í stað þess að byggja upp atvinnu og efnahag til framtíðar.  Og það sem e.t.v. er furðulegast; stjórnvöld virðast ekki vilja eða geta tekið á þessu apparati sem Vinnumálastaofnun er; þar virðast menn móta sín eigin lög og vera undanþegnir stjórnvöldum.  Áfram verður þó unnið í þessu máli á öllum sviðum; lögleysu og niðurrif verður að stöðva, sama hver á í hlut.
Afleiðingin af þessum löglausu ákvörðunum Vinnumálastofnun eru þó jafnvel alvarlegri fyrir verkefni Valorku en í fljótu bragði sýnist.  Þær valda því að verkefnisstjóri getur ekki lengur sýnt fram á eigið vinnuframlag sem mótframlag styrkja samkeppnissjóða.  Sem aftur hefur þær afleiðingar að styrkirnir fást ekki og verkefnið er dauðadæmt ef ekki kemur til styrkjapakki margra sjóða.  Stjórnvöldum verður einnig gerð grein fyrir þessum vanda.

Átvinnulausir eru eini hópur bótaþega í þjóðfélaginu sem ekki hefur nein formleg samtök og engan talsmann.  Þetta hlýtur að teljast furðulegt í því velferðarþjóðfélagi sem við teljum okkur lifa í, en furðulegra er þó sú staðreynd að núverandi velferðarstjórn sinnir í engu ákalli atvinnuleysingja um úrbætur í þessu efni.  VÖ hefur lengi reynt að vekja athygli stjórnvalda á hlutskipti þessa fjölmenna hóps bótaþega, t.d. með fjölmiðlaviðtölum; með bréfum til velferðarráðherra; með kærum til umboðsmanns Alþingis og með bréfum til félags- og tryggingamálanefndar Alþingis.  Sem stjórnarformaður Samtaka frumkvöðla og hugvitsmanna hvatti hann til þess að stjórnin sendi Velferðarráðherra erindi og fyrirspurn um málin.  Allt kemur fyrir ekki; engin svör fást, og enginn vilji virðist vera til úrbóta.  Mannréttindi þessa hóps eru áfram fótum troðin; framlag atvinnulausra til nýsköpunar er einskis metið.